„Ég er eiginlega bara fuglafræðingur“

Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV

„Ég er eiginlega bara fuglafræðingur“

22.04.2021 - 14:46

Höfundar

„Ég ætla að verða fuglafræðingur þegar ég verð stór,“ segir Nói Hafsteinsson, fjögurra ára að verða fimm. - Hvað gera fuglafræðingar? „Þeir fræðast um fugla“ – Eins og þú ert alltaf að gera? „Þannig að ég er eiginlega bara fuglafræðingur,“ segir Nói.

Var nokkurra mánaða farinn að benda á fugla

Rætt var við Nóa í þættinum Fuglum á Rás 1. Nói hefur alltaf haft áhuga á fuglum. „Bara síðan hann var pinkulítill,“ segir Hafsteinn Rannversson, pabbi Nóa. Nói fæddist í Danmörku og var um átta eða níu mánaða þegar hann var farinn að benda á dúfur og fleiri fugla. „Þegar hann var eins árs var hann kominn með fimm til sex mismunandi hljóð fyrir fugla eftir tegundum,“ segir Hafsteinn. Þegar fjölskyldan skellti sér í dýragarðinn í Danmörku hafði Nói meiri áhuga á dúfunum en dýrunum í búrunum, að undanskildum flamingóum og pelikönum.

Mynd: Día Þorfinssdóttir / Aðsend mynd
Nói í Danmörku ásamt foreldrum sínum Hafsteini og Díu - hlusta má á viðtal við Hafstein í spilaranum

Var hringvía á öskudaginn

Eins og kom fram í þættinum Fuglar á Rás 1 var Nói hringvía á öskudaginn og hann útskýrði að hringvía væri eins og langvía nema með hvít gleraugu. „Ef hann leirar þá leirar hann fugla, ef hann teiknar þá teiknar hann fugla, hann vill bara horfa á þætti um fugla, vill bara tala um fugla og ef hann leikur sér leikur hann sér sem fugl – og var fugl á öskudaginn, þriðja öskudaginn í röð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Día Þorfinnsdóttir - Aðsend mynd
Nói í hringvíubúningnum sem mamma hans, Día, saumaði fyrir öskudaginn

Leiðréttir foreldra sína

Foreldrar Nóa, Día Þorfinnsdóttir og Hafsteinn, hafa aldrei haldið fuglunum að Nóa og höfðu ekkert spáð sérstaklega í fuglum fyrr en Nói fór að gera það. Hafsteinn segir að Nói fræði sig með miklu grúski, skoði bækur, horfi á þætti og svo er lesið fyrir hann úr fuglabókum, enda ekki farinn að lesa sjálfur. „Skarfurinn er sjófugl, hann er líka árfeti,“ segir Nói í þættinum, „súla er líka árfeti,“ bætir hann við. „Þetta límist í hausinn á honum, ég hef alveg lesið þetta sjálfur, en hann man þetta bara alveg hundrað prósent – og leiðréttir svo foreldra sína,“ segir Hafsteinn.

Fuglar - um fiðraðar furður og fólkið sem veltir þeim fyrir sér var á dagskrá á sumardaginn fyrsta klukkan 13.00. Hlusta má á þáttinn í spilaranum efst í færslunni og þá má hlusta á viðtal við Hafstein, pabba Nóa, í spilaranum fyrir miðri færslu.