Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við stefnum ekki á taprekstur, það er alveg klárt“

21.04.2021 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar sem tekur brátt við rekstri hjúkrunarheimila á Akureyri segir að engin kúvending verði í rekstrinum. Hann segir fyrirtækið hafa ákveðnar hugmyndir um hvernig bæta megi reksturinn. Þær hugmyndir verði kynntar síðar. Akureyrarbær sagði sig frá rekstrinum vegna margra ára taps.

Akureyrarbær tapaði hundruðum milljóna á rekstrinum

Akureyrarbær tilkynnti vorið 2020 að rekstrarsamningur við Sjúkratryggingar Íslands um hjúkrunarheimilin í bænum yrði ekki endurnýjaður. Kom fram að sveitarfélagið hefði greitt ríflega 1,5 milljarð með rekstrinum síðustu fimm ár og við það yrði ekki lengur unað. Nokkrum mánuðum síðar var svo tilkynnt að fyrirtækið Heilsuvernd í Kópavogi tæki við rekstrinum. Þar starfa tæplega 300 manns á tveimur heimilum rúmlega 180 íbúa.

Sjá einnig: Akureyrarbær íhugar að skila rekstri öldrunarheimila

Viðurkenni áhyggjur ef engar breytingar verða gerðar

Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar segir að vinna við yfirtökuna sé þegar farin af stað. „Það er auðvitað skammur tími til stefnu fram að 1. maí, þangað til við tökum yfir. Svo eftir 1. maí erum við að stefna á fullan rekstur á sömu nótum og verið hefur. Við erum búnir að hitta stjórnendur og hluta starfsfólks og fara í heimsókn og erum full bjartsýni á að þetta verði hið skemmtilegasta verkefni,“ segir Teitur. 

Reiknið þið með að gera miklar breytingar á starfseminni?

„Þegar það koma nýir rekstraraðilar þá verða alltaf einhverjar áherslubreytingar og menn þurfa tíma til að skoða hlutina en það eru engar kollsteypur í okkar huga. Auðvitað vita allir að það hafa verið fjárhagsörðugleikar í þessu sem að menn spyrja sig hvernig við ætlum að eiga við. Við erum með ýmsar hugmyndir þar sem við erum ekki tilbúnir að deila núna. Við þurfum aðeins að skoða þetta og komast af stað.“

Þið óttist ekkert að lenda í sama taprekstri og bærinn?

„Jú, auðvitað höfum við áhyggjur af því að ef engar breytingar verða að þá geti þetta verið þungt. Við deilum áhyggjum fyrirtækja í þessum rekstri og þekkjum ágætlega til hans. Við erum vongóð um að það verði gerðar breytingar á fjármögnunarlíkani en að því sögðu erum við með hugmyndafræði á því hvernig þetta getur gengið upp. Við stefnum ekki á taprekstur, það er alveg klárt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær - RÚV
Hlíð