Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Verjandi Chauvins mun áfrýja“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði, efast um að sakfelling Dereks Chauvin fyrir morðið á George Floyd sé merki um allsherjarbreytingu. Chauvin var sakfelldur í öllum þremur ákæruatriðum seint í gær. Margrét segir að málinu verði áfrýjað.

Spennan var áþreifanleg í Minneapolis á meðan niðurstöðu kviðdómsins var beðið. Málflutningi lauk seint á mánudagskvöld og á tíunda tímanum í gær var niðurstaðan kunngjörð. Chauvin var sakfelldur í öllum þremur ákæruatriðum. Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur, segir að hún hafi ekki búist við því í upphafi að hann yrði sakfelldur fyrir annars stigs morð sem var alvarlegasta ákæran. „Og það er brot sem er hámarks 40 ára fanglesisvist fyrir,“ segir hún. Annars stigs morð þýðir í raun að Chauvin hafi vitað á þeirri stundu sem morðið var framið að hann væri að drepa George Floyd.

Mótmæli og umfjöllun hafi haft áhrif

Fjölmiðar og fólk vestanhafs segir sakfellinguna tímamót. „Þetta er merkilegt þegar maður skoðar söguna, langa sögu af sýknudómum í svipuðum málum, að því leyti er þetta sérstakt. En þá verðum við líka að muna að þetta mál er sérstakt að öðru leyti, það hefur fengið alveg gríðarlega athygli. Mjög mikla fjölmiðlaathygli og þess vegna, þá kom þessi dómur kannski ekki svo mikið á óvart,“ segir Margrét.  

epaselect epa09148503 People react near a mural of George Floyd after former Minneapolis Police Department Police Officer Derek Chauvin was found guilty on all counts in Minneapolis, Minnesota  in the death of Floyd in Atlanta, Georgia USA, 20 April 2021. Chauvin was found guilty on charges of second-degree murder, third-degree murder and second-degree manslaughter.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mörg fögnuðu sakfellingunni í gær.

Vegna þessa efast hún um að málið hafi í för með sér allherjarbreytingu. „Kannski er þetta bara merki um alla þess athygli og öll þessi mótmæli. Að þau höfðu áhrif. Það var í raun veru ekki hægt að gera annað en að dæma Chauvin fyrir allar þrjár ákærur.“

Nú er það í höndum dómara að ákveða refsingu. Margrét segir að einhverjar vikur líði áður en hún verður kveðin upp. „Fólk bíður jafn mikið eftir þeirri ákvörðun eins og hvort hann yrði sakfelldur. Verjandi Chauvins mun áfrýja og þá verður það sérstaklega notað að hann hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð útaf allri þessari fjölmiðlaathygli. Að fólk hafi verið búið að mynda sér skoðun áður, að sjórnmálaleiðtogar hafi komið fram í fjölmiðlum og dæmt Chauvin sekan án þess að hafa heyrt allt um málið. Það verður næsta skref, þessu verður áfrýjað.“