Spennan var áþreifanleg í Minneapolis á meðan niðurstöðu kviðdómsins var beðið. Málflutningi lauk seint á mánudagskvöld og á tíunda tímanum í gær var niðurstaðan kunngjörð. Chauvin var sakfelldur í öllum þremur ákæruatriðum. Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur, segir að hún hafi ekki búist við því í upphafi að hann yrði sakfelldur fyrir annars stigs morð sem var alvarlegasta ákæran. „Og það er brot sem er hámarks 40 ára fanglesisvist fyrir,“ segir hún. Annars stigs morð þýðir í raun að Chauvin hafi vitað á þeirri stundu sem morðið var framið að hann væri að drepa George Floyd.
Mótmæli og umfjöllun hafi haft áhrif
Fjölmiðar og fólk vestanhafs segir sakfellinguna tímamót. „Þetta er merkilegt þegar maður skoðar söguna, langa sögu af sýknudómum í svipuðum málum, að því leyti er þetta sérstakt. En þá verðum við líka að muna að þetta mál er sérstakt að öðru leyti, það hefur fengið alveg gríðarlega athygli. Mjög mikla fjölmiðlaathygli og þess vegna, þá kom þessi dómur kannski ekki svo mikið á óvart,“ segir Margrét.