Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þyrla gæslunnar send eftir konu við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send eftir erlendri konu nærri gosstöðvunum í Geldingadölum um klukkan 00:40 í nótt. Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum varð konan viðskila við hóp sem hún var með við gosstöðvarnar laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöld.

Sjálf átti konan í erfiðleikum með að átta sig á hvar hún væri. Björgunarsveitir hófu þegar leit. Reynt var að komast að því hvar hún væri með því að staðsetja síma hennar, og eins veifaði hún vasaljósinu á síma sínum. Konan fannst loks uppi í hlíð og var hún slösuð á fæti. Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum reyndist vonlaust að flytja hana niður hlíðina nema með aðstoð þyrlu. Þyrlan var komin á staðinn á öðrum tímanum í nótt og verður konan flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV