Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur marga annmarka á íslensku litakóðunarkerfi

Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum, gagnrýnir séríslenskt litakóðunarkerfi sem stjórnvöld vilja koma á á landamærunum þann 1. júní. Magnús hefði viljað að sóttvarnalæknir fengi rýmri heimildir til að skylda fólk í sóttkvíarhús. Hann vonar að stjórnvöld hverfi frá áformunum og óttast að stjórnmálamenn hafi ekki ráðfært sig nægilega við vísindamenn við ákvarðanatökuna. 

„Mér finnst eins og þarna sé verið að víkja svolítið frá, þetta er útfærsla sem ég veit ekki til þess að eigi sér nein fordæmi þannig að þarna er svolítið verið að leika af fingrum fram,“ segir Magnús. 

Veltir fyrir sér forsendum

Að hans mati eru ákveðnir veikleikar í útfærslunni sem stjórnvöld boðuðu á blaðamannafundi í gær. „Ég hefði gjarnan viljað sjá aðeins einfaldari og harðari útfærslu, mér er ekki alveg ljóst hvernig þessar tölur eru valdar sem miðað er við, hef ekki séð greiningu á því hvernig þær koma til eða hvort menn hafi keyrt spálíkön sem sýni að þetta séu mörk sem við getum alveg unað við, miðað við svona gríðarlega hátt nýgengi eins og þarna er verið að leggja til.“

Frumvarp ríkisstjórnarinnar miðar að því að fólk frá ríkjum þar sem nýgengi er yfir þúsund dvelji í slíku úrræði, og sömuleiðis fólk frá ríkjum með nýgengi yfir 750, nema það fái undanþágu. Magnús hefði viljað að sóttvarnalæknir fengi heimildir til að skikka fleiri í sóttvarnahús.

Litakóðunarkerfi byggi ekki á rauntímagögnum

Hann segist hafa áhyggjur af því að stjórnvöld hafi ekki ráðfært sig nóg við vísindamenn við ákvörðunatökuna, engin fordæmi virðist vera fyrir svona sérútfærslu á litakóðunarkerfinu. „ Mér finnst eins og þarna sé verið að víkja svolítið frá, þetta er útfærsla sem ég veit ekki til þess að eigi sér nein fordæmi þannig að þarna er svolítið verið að leika af fingrum fram.“ 

Þá geti verið flókið í framkvæmd að kanna hvaðan fólk er raunverulega að koma og vegna innbyggðra tafa gefi litakóðunarkerfið ekki alttaf rétta mynd af stöðu faraldursins í hverju landi. „Þannig getur faraldurinn verið í mjög mikilli uppsveiflu í landinu en landið enn grænt á þessum alþjóðlegu mælaborðum.“ 

Magnús telur mikil samfélagsleg verðmæti fólgin í því að varðveita góða stöðu innanlands. „Ég held það sé ólíku saman að jafna þar sem nýgengi er jafnlágt og hefur verið hér á Íslandi upp á síðkastið og stöðunni í þessum löndum þar sem nýgengið er 20 -30 sinnum hærra heldur en hér.“