Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja Suðurnesjalínu 2 margbrjóta lög og kæra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm umhverfisverndarsamtök hafa kært framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir því að leggja Suðurnesjalínu tvö sem loftlínu. Samtökin telja framkvæmdina lögbrot og ótækt að Landsnet fari ekki eftir mati Skipulagsstofnunar en fyrirtækið valdi þann kost sem stofnunin taldi sístan, að leggja loftlínu samsíða þeirri sem fyrir er. Forsvarsmaður Landsnets segir kæruna vonbrigði sem hugsanlega tefji verkið. Framkvæmdastjóri Landverndar segir tafirnar skrifast á þrjósku Landsnets.

Stormasöm saga ólagðrar raflínu

Þó framkvæmdir séu ekki hafnar eru saga Suðurnesjalínu tvö orðin löng og stormasöm. Línan á að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu raforku til og frá Suðurnesjum og Landsnet vill leggja hana í lofti, 34 kílómetra leið frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel í landi Grindavíkur. 

Fyrst fékkst leyfi til framkvæmda 2013, landeigendur kærðu það því þeir vildu að línan yrði lögð í jörð. Árið 2016 ógilti Hæstiréttur framkvæmdarleyfið á grundvelli gallaðs umhverfismats. Það hefði þurft að skoða fleiri kosti. Skipulagsstofnun gaf út nýtt mat í fyrra þar sem sex kostir voru skoðaðir. Niðurstaðan var sú að sá kostur sem Landsnet vill, loftlína meðfram Suðurnesjalínu, hafi neikvæðustu áhrifin í för með sér á ferðaþjónustu og náttúru, jarðstrengur væri vænlegri, einnig ef litið er til, stækkandi þéttbýlis og mögulegs flugvallar í Hvassahrauni. 

Telur fjárhagsleg rök ekki nóg

Landsnet kaus eftir ítarlega rýni að halda loftlínukostinum til streitu og óska eftir framkvæmdaleyfi. Fimm umhverfissamtök hafa kært þá ákvörðun; Hraunavinir, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir umhverfissinnar.

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Auður Önnu Magnúsdóttir.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, telur Landsnet brjóta lög um mat á umhverfisáhrifum með því að fara ekki að mati Skipulagsstofnunar. „Við höfum bara heyrt fjárhagslegan rökstuðning, engan tæknilegan eða neinar aðrar ástæður og það er ekki samkvæmt lögum hægt að nota það sem ástæðu til að velja kostinn sem er verstur fyrir umhverfið.“

Ekki grenndarkynnt 

Auður segir skipulagslög líka hafa verið brotin því sveitarfélögin hafi ekki látið fara fram grenndarkynningu. Að auki brjóti áform um að raska vernduðu hrauni gegn náttúruverndarlögum. Samtökin  krefjast þess að framkvæmdaleyfi Landsnets verði fellt úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar uns úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skilar niðurstöðu. 

Vonbrigði að fá kæru

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Sverrir Jan Norðfjörð.

„Þetta eru í sjálfu sér vonbrigði,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, þróunar- og tæknistjóri Landsnets. Hann telur ólíklegt að lög hafi verið brotin því vandað hafi verið til verka í öllum undirbúningi. Loftlína sé um tveimur milljörðum ódýrari en að leggja strenginn í jörð. „Þetta er töluverður peningur sem þetta munar en engu að síður, þetta er ekki það eina sem ræður, það þarf að horfa á öll þessi ólíku sjónarmið, bæði öryggið og kostnaðinn og umhverfisáhrifin.“ Þá horfi fyrirtækið til þess að uppfylla stefnu stjórnvalda. Landsnet hafi ekki hunsað niðurstöðu Skipulagsstofnunar, það hafi bara þurft að taka fleira með í reikninginn. Eins sé það sveitarfélaga að hafa hliðsjón af umhverfismatinu þegar þau veita framkvæmdaleyfi. 

Skoðuðu málið í ljósi jarðhræringa

Hann segir sérstaklega hafa verið horft til áhrifa jarðhræringa og náttúruvár. Þá hafi vangaveltur um Hvassahraunsflugvöll verið teknar með í reikninginn, Sverrir segir að mikil óvissa ríki um hvort hann rísi og þá hvernig flugbrautir myndu liggja. Landsnet hafi metið það svo að það borgaði sig samt að leggja loftlínu og leggja hana þá í jörðu þegar það liggur fyrir. í yfirlýsingu umhverfissamtakanna fimm er fullyrt að engir jarðstrengir hafi skaðast í jarðhræringunum á Reykjanesskaga og með því að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng í vegöxl Reykjanesbrautar væri línan staðsett utan sprungusveims Suðurnesja. 

Ekki eining meðal sveitarfélaganna

Mynd með færslu
Sveitarfélagið Vogar. Mynd úr safni. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Sveitarfélagið Vogar. Sverrir segir viðræður í gangi við sveitarfélagið sem hafnaði beiðni Landsnets um framkvæmdaleyfi.

Þrjú af fjórum sveitarfélögum sem línan fyrirhugaða liggur í gegnum hafa veitt leyfi fyrir framkvæmdunum; Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík en Vogar synjuðu beiðni Landsnets. Alls hafa 140 landeigendur af 148 leyft framkvæmdina. Allir þurfa þeir að veita leyfi til að hægt sé að hefja verkið og nú bætist við annar tálmi, bið eftir úrskurði. „Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd og það hefur dregist mjög lengi að koma þessum úrbótum á,“ segir Sverrir. Auður segir að Landsnet geti sjálfu sér um kennt. „Já málið hefur tafist mjög lengi út af þrjóskunni í Landsneti að setja þetta ekki bara í jarðstreng."