Sylvía nýr sveitarstjóri í Skeiða og Gnúpverjahreppi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps gekk í dag frá ráðningu nýs sveitarstjóra í sveitarfélaginu. Gengið verður til samninga við Sylvíu Karen Heimisdóttir sem hefur verið aðalbókari sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar frá því í dag. Í seinustu viku sagði Kristófer Tómasson upp starfi sínu sem sveitarstjóri. Sagði hann ástæðuna vera að verulegt tap væri á rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins, annað árið í röð. Þetta væri eitthvað sem hann tæki mjög nærri sér því verið væri að sýsla með almannafé og brýnt að á því væri vel haldið.

Kristófer hefur gegn starfi sveitarstjóra frá árinu 2012 og bendir á í bókun sinni frá seinasta fundi sveitarstjórnar á að flest þau ár hafi rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins verið vel viðunandi. Síðustu tvö ár hafi farið á verri veg.

Hann fór í leyfi síðasta sumar af persónulegum ástæðum en þá  var rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins neikvæð um 36,5 milljónir. Áherslur hans og meirihluta sveitarstjórnar fóru ekki saman og hann segist hafa bent á ýmsa vankanta á rekstri sveitarfélagsins og leiðir til að bæta þar úr. 

Á fundi sveitarstjórnar í dag fór einnig fram síðari umræða um ársreikning ársins 2020. Þar kemur fram að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins hafi verið neikvæð, eins og áður segir um 40,1 milljón króna. Í bókun meirihlutans segir meðal annars:

„Í byrjun kjörtímabilsins var góður hagnaður á rekstrinum og var þeim hagnaði útdeilt sem mest til allra íbúa með aukinni þjónustu og minni gjöldum. Eins var umtalsverðu fé varið í innviði svo sem gatna og holræsagerð. En nú hefur rekstrarumhverfi sveitarfélaga breyst til hins verra og verðum við að mæta þessum breyttu aðstæðum með ákveðnu aðhaldi til að tryggja jafnvægið í rekstrinum. Það mun verða gengið mjög ákveðið í þá átt en jafnframt horft til þess eins og kostur er að gæta samræmis og sanngirni. En það er samt algjörlega ljóst að til að laga þessa slagsíðu sem er á rekstrinum í dag þarf bæði að skera í þjónustuna sem er mjög góð í dag og auka gjöld að einhverju leyti,“ segir í bókuninni.

Í öðrum lið var samþykkt að sveitarfélagið taki lán til 13 ára hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 40 milljónum króna til að greiða niður yfirdrátt á ráðstöfunarreikningi sveitarfélagsins.  

Samhliða ráðningunni í dag var lagt til að starfshlutfall þjónustufulltrúa hjá sveitarfélaginu verði tímabundið aukið í 100%. 

Ingvar Hjálmarsson, fulltrúi minnihluta lagði fram bókun þar sem hann sagðist samþykkja tillöguna en hann geri kröfu um skýra verkaskiptingu þar sem hugmyndir virðast vera á þá leið að oddviti og varaoddviti stígi enn frekar inn í vinnu sveitarfélagsins tímabundið. 

Anna Sigríður Valdimarsdóttir, sem einnig situr í minnihluta lagði einnig fram bókun þar sem hún segistsitja hjá undir þessum lið vegna þess að Gróska talaði fyrir því að auglýsa starf sveitarstjóra fyrir síðustu kosningar.

„Þá fæ ég ekki séð hvernig þessi leið meirihlutans verður útfærð áfram. Ég óttast að útfærslan kunni að verða flókin og ábyrgðin og verkaskiptingin óljós og dreifð. Að því sögðu þá fagna ég aukinni ábyrgð þessara kvenna og treysti þeim til þeirra verka sem þeim verður falið,“ segir í bókuninni.