Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Snjóléttur vetur fer vel með vegagerð á Dynjandisheiði

21.04.2021 - 07:50
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
„Þetta er semsagt fyrsti áfangi á veg yfir Dynjandisheiði, þetta verk sem við erum með hérna, sex kílómetra kafli hérna sunnan við heiðina og svo fjögura kílómetra kafli í Arnarfirði – í framhaldi af Dýrafjarðargöngunum,“ segir Pétur Hemmingsen, verkefnastjóri hjá ÍAV.

„Við byrjuðum í október og eigum að klára næsta haust þannig að þetta er mikið spretthlaup og áskorun að klára þetta á réttum tíma en við ætlum að reyna eins og við getum. Tíðin hefur verið góð í vetur það hefur hjálpað mjög mikið og erum með góðan mannskap og reyndan, svo þetta hefur gengið vel hingað til,“ segir Pétur. 

„Hér reiknaði enginn með að geta unnið alla daga vetrarins, nánast non-stop, þessi vetur verður lengi í minnum hafður og fer í sögubækurnar ábyggilega fyrir hvað hann er búinn að vera mildur,“ segir Einar Már Gunnarsson, verkstjóri ÍAV. „Auðvitað höfum við fengið á okkur snjóa og talsverða jafnvel en ekkert miðað við þá sem á að vera á þessum slóðum í venjulegu árferði. Hér efst í verkinu erum við komnir í 400 metra hæð þar á ekkert að vera hægt að vinna á veturna, en okkur hefur tekist það útaf góðu verði, það hefur leikið við okkur. Við erum á áætlun og vel það svo við erum bara montnir með sjálfa okkur hérna.“ 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður