Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Skringilegt og klaufalegt frumvarp“

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir stjórnarfrumvarp um eftirlit á landamærum sem kynnt var í gær líta skringilega út. Með því færist auknar heimildir til stjórnvalda frá sóttvarnalækni. Nauðsynlegt samráð við vísindasamfélagið hafi augljóslega ekki verið haft við smíði frumvarpsins - sem sé býsna klaufalegt. 

 

Í þá 14 mánuði sem liðið hafa frá því að faraldurinn hófst hér á landi hefur sóttvörum verið stjórnað af sóttvarnalækni. Kári segir það hafa gengið vel. Stjórnarfrumvarpið sem kynnt var í gær beri þess merki að stjórnvöldum sé mikið kappsmál að koma hlutunum í lag. 

En það er lítið annað en það. A.m.k. í mínum huga þá lítur það skringilega út.

Nýja frumvarpið taki að mestu leyti völdin af sóttvarnalækni. Þar megi merkja vilja stjórnvalda til að takmarka heimildir hans til að beita þeim aðferðum sem eru skynsamlegastar hverju sinni. Þetta segir Kári býsna klaufalegt, og bjánalegt. Allt í einu sé komið fram frumvarp sem ber þess merki að það hafi kannski ekki verið leitað til, sótttvarnayfirvalda, það hafi a.m.k. ekki verið leitað til vísindamanna og fræðimanna við smíð á þessari viðbót eða breytingum á lögunum. 

Hann  er hræddur um að einhvers konar kosningakvíði sé kominn í stjórnmálamenn.

Mér finnst það dapurlegt því mér finnst að ríkisstjórnin hafi fram að þessu staðið sig mjög vel í þessari farsótt. 

Allt tal um litakóðunarkerfi sé tómt og tilgangslaust þvaður þar sem forsendur þess hvernig lönd eru flokkuð breytist í sífellu.

Einhvern tímann sagði ég við ykkur að mér þætti það einhvers staðar klofvega milli þess að vera fyndið og grátlegt. Fyrir mínum augum núna þá lítur þetta út fyrir að vera dapurlegt að láta sér detta í hug að þetta sé bjóðandi þessari þjóð. Þetta kerfi kemur aldrei til með að virka almennilega.

Löggjafinn geti ekki sett fyrirfram reglur um ástand sem enginn viti nú hvernig verður. Afhending bóluefna geti breyst og enn sé ekki ljóst hversu mikla vörn þau veita. Enginn möguleiki að spá fyrir um hvað gerist á morgun þegar kemur að þessari pest. 

Það er töluverður munur á því þegar ríkisstjórnin segir okkur að þeir ætli að opna landið 1. júlí án þess að hafa hugmynd um hvernig ástand verður þá og svo hinu, þegar ég reyni að vera fyndinn, -og það misheppnast kannski, en ég reikna með að þetta verði komið í lag 13. október.

Af hverju 13. október?

Það er einkamál.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV