Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigríður setur fyrirvara við sóttvarnafrumvarpið

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Búist er við að frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnalögum og á lögum um útlendinga verði samþykkt í dag og að það taki strax gildi.  Eining er innan þingflokka VG og Framsóknar um málið, en skoðanir eru skiptar innan þingflokks Sjálfstæðisflokks.

Samkvæmt frumvarpinu verður sóttvarnalögum breytt þannig að heilbrigðisráðherra getur skyldað ferðamenn frá hááhættusvæðum í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Veita má undanþágu frá þessari skyldu berist umsókn minnst tveimur sólarhringum áður en ferðamaður kemur til landsins. Einnig er lagt til að útlendingalögum verði breytt þannig að dómsmálaráðherra geti meinað útlendingum sem koma frá þessum svæðum að koma til landsins.

Þingfundur hefst klukkan eitt og fyrsta umræða um frumvarpið er þar á dagskrá. Það var lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna í gærkvöld og samkvæmt upplýsingum fréttastofu var einhugur um það innan þingflokka Framsóknar og Vinstri grænna. Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við fréttastofu í gær að nokkrir þingmenn flokksins gerðu fyrirvara við frumvarpið. Einn þeirra er Sigríður Á. Andersen, sem ekki vildi gefa upp hvort hún hygðist greiða atkvæði með frumvarpinu - það myndi koma í ljós í dag.

„Ég gerði fyrirvara við málið,“ segir Sigríður. „Ég hef bent á það að okkur hefur gengið langbest með því að höfða til almennrar skynsemi og samstarfsvilja almennings um að halda veirunni niðri. Staðan núna er miklu mun betri en oft áður hérna innanlands, sérstaklega með tilliti til þess að við höfum verið að bólusetja hópinn af viðkvæmum. Þetta er ástæða þess fyrirvara sem ég set við málið.“

Sigríður segir að talsvert skorti á upplýsingagjöf varðandi þær forsendur sem liggi að baki þessari ákvörðun. „Það liggja til dæmis ekki fyrir neinar upplýsingar um hvað það er nákvæmlega sem knýr á þessar aðgerðir á þessum tímapunkti. Það hefur vissulega verið vísað til sóttkvíarbrots, en ekki einangrunarbrots sem segir manni að viðkomandi hefur  verið með tvöfalda neikvæða skimun,“ segir Sigríður. „Mér finnst til dæmis vanta upplýsingar um hversu mörg meint brot  á reglum um sóttkví hafa leitt til smita.“