Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Pólverjar líklegri til að greinast smitaðir við komu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Hæst hlutfall smita á landamærum greinist meðal fólks með pólskt ríkisfang. Næsthæsta hlutfallið er hjá Íslendingum.

Þau lönd sem eru með flest smit á hverja 100 þúsund íbúa í Evrópu eru Frakkland, Holland, Ungverjaland og Pólland. Ríkisborgarar þessara landa verða skyldugir til að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi eða hugsanlegt bannað að koma hingað verði nýgengi þar hærra enn 1000 á hverja 100 þúsund íbúa.  Þetta tilkynnti ríkisstjórnin í gær. 

Pólverjar með um 45% smita - 20% komufarþega frá Póllandi

Farþegar sem eru með pólskt ríkisfang voru líklegri en aðrir til að greinast smitaðir í fyrri og seinni skimun á landamærum á tímabilinu 20. ágúst til 20. nóvember í fyrra. Þetta kom fram í óbirtu fylgiskjali með skýrslu stjórnvalda, en hún var birt 15. janúar. Fréttablaðið greinir frá þessu. Blaðið óskaði eftir fylgiskjalinu og var sagt að talið hefði verið óvarlegt að birta það nema að athuguðu máli. Fylgiskjalið hefur nú verið birt.

Fólk með pólskt ríkisfang er tæplega 44% af þeim sem greindist jákvætt í fyrri skimun, samkæmt fylgiskjalinu að því er kemur fram Fréttablaðinu, og næstflestir með íslenskt ríkisfang eða 19%. Svipað hlutfall er í seinni skimun. Þar eru tæplega 47% greindra með pólskt ríkisfang og tæplega 21% með íslenskt ríkisfang. Pólverjar voru tæp 20% þeirra sem komu til landsins á þessu tímabili. Íslendingar voru flestir 31%. 

Vottorðin áreiðanleg

Vottorð um bólusetningu, fyrra smit eða mótefni hafa reynst áreiðanlega á landamærunum. Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins í morgun segir að enginn komufarþegi sem hafi framvísað slíku hafi verið greindur með virkt smit við komu til landsins. Nærri fjórðungar allra komufarþega 1. til 15. apríl framvísaði slíkum vottorðum. 

4000 bólusett í dag á höfuðborgarsvæðinu

Í dag verða 4000 manns bólusett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er fólk með undirliggjandi sjúkdóma og einnig fólk með fötlum sem býr í heimahúsi. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu segir að næsta vika verði líka stór í bólusetningum eins og þessi. Þá verður haldið áfram að bólusetja fólk með undirliggjani sjúkdóma og líka fólk á aldrinum 60 til 69 ára.