Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óhætt að eyða SMS-um frá BPO

21.04.2021 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Fólki sem fékk sms-skilaboð um ógreidda skuld frá innheimtufyrirtækinu BPO er óhætt að eyða því. „BPO Innheimta er ekki að senda út SMS. SMS voru send út og látið líta þannig út að BPO innheimta væri að innheimta gamla skuld. Ef þið fáið slíkt skilaboð, þá er óhætt að eyða þeim,“ segir á vefsíðu BPO, með engum frekari skýringum. Formaður Neytendasamtakanna segir fyrirtækið virðast viðurkenna mistök við innheimtu í síðustu viku en ekki náðist í framkvæmdastjóra BPO við vinnslu fréttarinnar.

Fyrirspurnum rigndi yfir Neytendasamtökin í síðustu viku eftir að BPO sendi fjölda fólks innheimtukröfur vegna smálána seint á þriðjudag, sumum í heimabanka og öðrum með SMS-i. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir ljóst að sumar af skuldunum hafi verið fullgreiddar og samtökin fara nú yfir gögn sem þeim hafa borist frá BPO vegna krafnanna.

„Virðast viðurkenna rangar upphæðir“

Kröfurnar voru margar sendar inn á heimabanka fólks og í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sagði að BPO Innheimta hefði keypt allt kröfusafn Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla. Með kaupum á kröfusafninu hefði lántökukostnaður og allir vextir aðrir en hefðbundnir dráttarvextir verið felldir niður. Til þess að fá niðurfellda dráttarvexti og innheimtukostnað þyrfti að borga skuldir fyrir 15. maí, óháð því hversu gamlar þær væru. 

Neytendasamtökin sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu um að fjárhæðir þeirra reikninga sem BPO hefði sent fyrrum lántökum innihéldu lántökukostnað, innheimtukostnað og vexti. Þá hafi kröfurnar verið settar inn í heimabanka seint 13. apríl með eindaga sama dag. 

Kröfurnar voru í kjölfarið teknar út af heimabönkunum og Breki segir að samkvæmt svörum BPO til Neytendasamtakanna sé nú verið að yfirfara upplýsingar og stefnt að því að senda uppfærðar kröfur. „Allar kröfurnar voru teknar út en svo segjast þeir ætla að setja þær aftur inn með réttum upphæðum. Þannig virðist fyrirtækið viðurkenna að það hafi sett rangar kröfur inn á heimabanka fólks. Við bíðum og gerum ekkert fyrr en við sjáum hvað gerist. En í ljósi sögunnar, bæði hvað varðar smálán og þetta fyrirtæki, og að á þeim stutta tíma sem það hefur starfað hefur það náð að klúðra málum svona svakalega, þá berum við lítið traust til fyrirtækisins og geldum varhug við öllu sem frá þeim kemur,“ segir hann. 

SMS til fólks sem kom af fjöllum

Einhverjir fengu sms-skilaboð um ógreidda skuld þar sem þeim var beint inn á heimasíðu BPO og þar var einnig gefinn upp þjónustusími fyrirtækisins. Breki segir að sumir þeirra hafi ekki kannast við að hafa nokkurn tímann tekið smálán. „Það er líklegt að sum af þessum smsum hafi ekki haft neinn rétt á sér, og fyrirtækið sór það af sér og sagðist hafa orðið fyrir netárás. En það er skrítið ef öryggið er ekki meira en þetta hjá fyrirtækinu. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem persónuvernd þarf að skoða,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV