Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mín skoðun er að Akureyri eigi ekki að vera bílabær“

21.04.2021 - 14:35
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri, segir að Akureyri þurfi ekki að vera sá mikli bílabær sem hann er. Þjónusta sé í flestum tilfellum innan seilingar og í göngufæri. Hann telur mikilvægt að virðing sé borin fyrir fjölbreyttum samgöngum.

Guðmundur Haukur var gestur í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar ræddi hann umferðarmenningu á Akureyri. Viðtalið við Guðmund má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

„Það eru flestir með allt innan korters“

„Mín skoðun er að Akureyri eigi ekki að vera bílabær þegar hann þarf ekki að vera það. Við vitum að við erum með mestu bílabæjum í heimi. Það er erfitt að finna fleiri bíla per íbúa í heiminum. Ég hef fullan skilning á því að við búum norðarlega og við vissar aðstæður þurfum við bíl en Akureyri er lítil og ég er að benda á það. Það eru flestir með allt innan korters, svona flesta daga og það er rosalega mikið af þeirri þjónustu sem við þurfum að sækja innan seilingar,“ segir Guðmundur.

Hver vegna er þessi menning svona rík á Akureyri? 

„Þetta er þessi rútína sem fólk liggur í, þetta liggur í henni. Ég hef fullan skilning á því að hér er oft vont veður en það eru líka rosalega oft plús fimm gráður hérna og snjólaust og við erum að læra að við þurfum ekki öll að vera mætt í vinnuna nákvæmlega á sama tíma. COVID er nú búið að kenna okkur það.“

Sjá einnig: Þrettánda bensínstöðin opnuð á Akureyri

Nær öll grunnskólabörn innan við 10 mínútur í skólann

Guðmundur bendir á að á Akureyri eru sjö grunnskólar og ekkert barn ætti að vera búsett lengra en einn kílómetra frá skóla. „Grunnskólabörn eru ekki lengur en 12 mínútur að labba einn kílómetra þannig að þeir sem búa lengst frá skóla eru mögulega 12 mínútur að labba í skólann. Auðvitað má velja að vera í öðrum skóla en í sínu hverfi og það eru einhverjir. Við getum örugglega sagt að 95% grunnskólanema er undir 10 mínútum að labba í skólann.“

Mikilvægt að allir fái sitt pláss

Hann segir mikilvægt að umræðan fari ekki út í öfgar. Mikilvægt sé að halda öllum valmöguleikum opnum og gera samgöngur fjölbreyttari. „Ég er ekki að tala fyrir bíllausum lífsstíl eða neitt þess háttar. Ég er að tala til þess að allir fái sitt pláss og það eigi engin samgöngukerfi meira en annar. Og bara þessi virðing fyrir mismunandi samgöngumátum.“

En hver er gróðinn, hvað græðum við á því að laga þetta, eins og þú segir? 

„Þá erum við að tala um loftslagsmál, svifrykið. Við eigum ekki að sætta okkur við að hér sé vandræða svifryk. Við viljum að allir hafi sama aðgang að bænum, óháð því hvernig þeir velja að ferðast.“