Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Læknum líst illa á áhættumat stjórnvalda á landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: Læknafélag Íslands - Lækanfélag Íslands
Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) gerir alvarlegar athugasemdir við þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að „endurskilgreina áhættumat sem alþjóðleg samstaða ríkir um og er grundvöllur sóttvarnaaðgerða innan Evrópska efnahagssvæðisins“. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu frá félaginu.

Læknafélagið telur réttast að aðgerðir á landamærum styðjist við að hááhættusvæði (dökkrauður litakóði á korti ECDC) verði áfram skilgreind sem lönd þar sem 500 tilfelli hafa greinst á 100.000 íbúa á síðustu tveimur vikum, en ekki 1.000 tilfelli, og áhættusvæði (rauður litakóði á korti ECDC) verði miðuð við 150-500 tilfelli á 100.000 íbúa í stað 750 tilfella á 100.000 íbúa eins og lagt er til í frumvarpinu. 

Læknarnir taka þó undir mikilvægi lagasetningarinnar og telja hana hluta af nauðsynlegum aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. 

Þá kemur fram í yfirlýsingu félagsins að það telji réttast að við mat á framgangi bólusetninga og slökunar á sóttvörnum innanlands og á landmærum skuli miðað við að fullorðið fólk hér á landi sé fullbólusett. Þá sé ekki nóg að fólk hafi aðeins fengið fyrri sprautuna. 

„LÍ telur vert að nefna að farsóttarfarldrar lúta ekki óskhyggju og eiginleikar sýkils geta breyst skyndilega og því mikilvægt að sóttvarnayfirvöld,  þegar um tilfelli alvarlegra farsótta er að ræða, hafi  nægjanlega sveigjanlegar og fullnægjandi laga- og valdheimildir til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem ógnað getur samfélaginu. Enda er ráð fyrir því gert eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.“