„Hún fer í þessa einföldu aðgerð en þá gerist eitthvað“

Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV

„Hún fer í þessa einföldu aðgerð en þá gerist eitthvað“

21.04.2021 - 09:16

Höfundar

Móðir Dagnýjar Maggýjar Gísladóttur veiktist alvarlega á geði eftir aðgerð á sjúkrahúsi og festist í svartnætti þunglyndis sem dró hana til dauða á rúmu ári. Dagný og fjölskylda upplifðu mikið úrræðaleysi í veikindum móðurinnar sem hún segir frá í bókinni Á heimsenda sem kom út árið 2018.

Dagný Maggýjar Gísladóttir, verkefnastjóri og rithöfundur er fædd á Akureyri en ólst upp í Keflavík. Hún hefur alltaf haft unun af því að segja sögur og hóf feril sinn sem blaðamaður á Víkurfréttum. Fljótlega fann hún þó að starfið átti ekki öllu leyti við hana því henni fannst óþægilegt að vera alltaf að hringja í ókunnugt fólk. Tvítug hélt hún til Ísraels þar sem hún starfaði á samyrkjubúi og ferðaðist í kjölfarið til Egyptalands og Líbanon. Dagný er sérlega lunkinn þverflautuleikari sem hefur starfað við skipulagningu menningarmála og skipulagt marga tónlistarviðburði, meðal annars tónleikaröðina Söngvaskáld á Suðurnesjum.

Dagný hefur gefið út nokkrar bækur, meðal annars sögulega bók um Brunann á Skildi sem varð á jólatrésskemmtun fyrir börn í félagsheimilinu Skildi í Keflavík þann 30. desember 1935 þegar tíu manns létust, þar af sjö börn. Í nýlegri bók hennar Lífið á Vellinum skyggnist hún inn fyrir hliðið á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem var og hét.

„Þar hefst rússíbanareið sem stendur yfir í rétt rúmt ár“

Á heimsenda er bók sem Dagný gaf út árið 2018. Hún segir sögu móður sinnar sem fór í aðgerð á spítala og sneri þaðan alvarlega veik á geði. Í kjölfarið fór af stað erfið atburðarás sem lauk með andláti móður Dagnýjar. „Þar hefst þessi rússíbanareið sem stóð bara yfir í rétt rúmt ár. Hún fer í þessa einföldu aðgerð og það bara gerist eitthvað,“ segir Dagný í samtali við Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Dagný lýsir Maggý móður sinni sem glaðværri konu og hraustri en eftir aðgerðina sökk á ógnarhraða í djúpt þunglyndi og glímdi við ofsakvíða. „Það gengur ekkert, engin lyf duga. Það er allt reynt,“ rifjar hún upp. Á stuttum tíma gerir móðir hennar þrjár tilraunir til sjálfsvígs, í þriðja skipti tókst henni ætlunarverkið. „Við vorum í raun algjörlega ráðalaus og gátum lítið gert.“ Eftir andlát Maggýjar vöknuðu ótal spurningar hjá Dagnýju og fjölskyldu.

Ólík sjálfri sér og óttaslegin

Daginn eftir aðgerðina örlagaríku heimsækir Dagný móður sína til að athuga hvernig hún hafi það. Dagnýju er afar brugðið þegar Maggý segir við dóttur sína: „Ef ég hefði vitað að þetta færi svona hefði ég aldrei farið í þessa aðgerð.“ Dagný sá að móðir hennar var ólík sér og og óttaslegin, strax orðin breytt manneskja.

Minningar um ofbeldi í æsku koma upp á yfirborðið

Stuttu síðar fær Dagný heimsókn frá móður sinni sem fær fyrsta kvíðakastið og brestur í grát fyrir framan hana. Fljótlega kemur í ljós að atburðir í æsku sem hún hafði aldrei áður talað um við fjölskylduna voru að koma upp á yfirborðið. „Það sem sló mig strax í byrjun var að hún segir við mig: Af hverju var mér kastað milli veggja? Þá kemur í ljós að hún hafði verið beitt ofbeldi, afi hafði verið harðhentur við hana og beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi.“

Eftir að hafa greint frá þessu bætti hún því við sem var sláandi fyrir dóttur hennar að heyra: „Ég er svo hrædd um hvað ég muni gera við sjálfa mig.“

Það virtist sem aðgerðin hefði ýft upp erfiðar minningar en fjölskyldan fékk aldrei skýringar á því hvernig aðgerðin hefði haft þessi skelfilegu áhrif. Dagný segir að móðir hennar hafi alltaf lagt sig fram við að standa sig, sett á sig mikla pressu og verið dugleg og ákveðin í að vera sterk. Á þessum tímapunkti hafi ýmislegt uppsafnað, sem hún hefði lengi lagt sig fram við að bæla niður, rutt sér leið upp á yfirborðið.

Lýsti því sem hún ætlaði að gera

Maggý var á sextugasta aldursári þegar á þessu stendur og fjölskyldunni finnst mikið úrræðaleysi einkenna heilbrigðiskerfið. Eftir kvíðakastið fór Dagný með móður sína á heilsugæsluna og svörin sem þær fengu var að lítið væri hægt að gera svo mæðgurnar voru sendar á geðdeild.

Dagný útskýrði fyrir lækni sem þær töluðu við að móðir hennar hefði sagst óttast að hún myndi gera sér eitthvað. Læknirinn snýr sér að Maggýju og spyr: „Geturðu hugsað þér hvað þú myndir gera?“ Hún svaraði um hæl og lýsti því í smáatriðum sem reyndist vera það sem hún gerði í fyrstu sjálfsvígstilraun.

Hafði áhyggjur af aukaverkun lyfjanna

Geðlæknir sendi hana í fjölmörg próf og skrifaði upp á lyf en þá kom í ljós að Maggý hafði alltaf verið hrædd við lyf. „Hún byrjar að taka lyfin en var alltaf að berjast á móti þeim, og það var svo erfitt í öllu þessu sjúkdómsferli að hún var alltaf að berjast á móti okkur.“ Dagnýju þótti leiðinlegt að fara í það skakka hlutverk að þurfa að biðja mömmu sína að hlýða. „Hún reyndi sitt besta en þessi þráhyggja var allan tímann að berjast á móti henni. Hún hafði svo miklar áhyggjur af aukaverkunum lyfjanna.“

Ekki mamma heldur sjúkdómurinn

Dagný átti afmæli þegar móðir hennar fór í aðgerðina í apríl og hennar fyrsta tilraun til sjálfsvígs var í júní. Sú tilraun tókst ekki og þá segist Dagný hafa endurheimt móður sína en þó aðeins í nokkra daga. „Það bráði af henni og við áttuðum okkur á að þessi manneskja sem við vorum að eiga við, og var svona erfið, var náttúrulega ekki mamma heldur sjúkdómurinn.“

Hefði viljað fá að vera bara dóttir hennar

En atburðarásin var hröð og óhugguleg og Dagný segir að fjölskyldunni hafi fundist hún ráðalaus og þau voru hálflömuð af ótta. „Við vissum ekkert hvað við ættum að gera og mér fannst sérstaklega erfitt sem dóttir að vera í þeirri aðstöðu að geta ekki hjálpað móður minni,“ segir hún.

Dagný tók að sér það hlutverk að tala við lækna, skipuleggja viðtal og fundi, „en eftir á að hyggja hefði ég viljað fá að vera bara dóttir hennar. Að geta verið að halda utan um hana og róa hana og sinna henni þannig. En það var ekki tími til þess.“

Vildi alls ekki fara á Klepp

Dagný segir að fyrir tæra heppni hafi þeim tekist að koma henni inn á Klepp en móður hennar þótti þungbært að fara þangað, sem Dagný segir að sé meðal annars vegna þess hve gildishlaðið orðið Kleppur sé orðið. „Fyrir mömmu var þetta lokastöðin og hún vildi alls ekki fara inn á Klepp, svo við tókum ákvörðun í samráði við hennar lækni að þvinga hana til þess sem er tímabundið úrræði.“ Systir Dagnýjar var hjá móður þeirra á geðdeild daginn sem hún átti að fara þangað og það var þungbært að horfa upp á hana svo sorgmædda.

Þegar leigubíll var kominn að sækja hana til að fara með hana á Klepp reyndi Maggý sjálfsvíg í annað sinn með því að kasta sér fram af þriðju hæð. Hún lifði fallið af en hryggbrotnaði. Fjölskyldan varð í kjölfarið mjög örvæntingarfull. „Ég hugsa um okkur systkinin, maður er svo bjargarlaus,“ segir Dagný. „Þarna vorum við orðin rosalega hrædd um hana.“

Óttaðist að móðir sín gerði sjálfri sér eitthvað við heimkomu

Systkinin ákváðu að reyna ekki að þvinga móður sína aftur í ferlinu heldur að vinna með henni en voru hrædd um það sem gæti gerst þegar hún væri útskrifuð af spítalanum eftir hryggbrotið. „Mér er eftirminnilegt samtal sem ég átti á sjúkrahúsinu daginn sem átti að útskrifa hana og ég segi að ég sé hrædd við að hún fari heim og vilji það ekki.“

Móðir Dagnýjar spyr hvers vegna svo sé og hún svarar að hún óttist að hún geri sér eitthvað. „Hún svaraði strax: Ég mun ekkert gera það, hálfreið við mig að detta það í hug, en svo náttúrulega gerði hún það.“

„Þar lauk þessari baráttu á þennan ömurlega hátt“

Daginn áður en hún lést átti Dagný fund með meðferðarteymi móður sinnar þar sem ákveðið var að hún prófaði nýtt lyf. „Það var erfitt fyrir hana að samþykkja það því hún var svo hrædd við þessi lyf, en ákvað að hún skyldi reyna og gefa þessu tækifæri.“ 

Dagný var bjartsýn eftir fundinn en áður en hún kvaddi móður sína þennan dag sagði mamma hennar við hana: „Ekki yfirgefa mig.“ Dagný lofaði að gera það ekki en daginn eftir tók hún bílinn og keyrði fram af klettabjörg og ofan í sjó. „Þar lauk þessari baráttu á þennan ömurlega hátt.“ Fimm árum síðar fór stjúpfaðir Dagnýjar sömu leið, en hann hafði lengi glímt við þunglyndi.

Ekkert gaf skýringu á hvers vegna hún breyttist svona skyndilega

Fjölskyldan hafi setið eftir með ótal spurningar um hvað hefði átt sér stað eftir að Maggý fór í aðgerðina. „Ég reyndi að fá svör og gekk á milli lækna til að reyna að skilja betur hvað gerðist en það kom ekkert úr krufningu sem gaf skýringu á því af hverju hún breyttist svona skyndilega.“

Það hafi orðið ljóst að móðir hennar hafi átt erfiða æsku og aldrei náð að vinna úr minningunum. „Við þurfum að tala meira um tilfinningar og áföll. Við erum með tilfinningar og þurfum að ræða þær svo það byggist ekki upp í gegnum árin og endi svona skelfilega. Í hennar tilviki held ég að það hafi verið rótin að þessu öllu þó svo að aðgerðin hafi hleypt því af stað. Þarna var eitthvað undir niðri sem alltaf var lokað á.“

Erfitt að fá engan stuðning

Dagný kveðst hafa fundið fyrir miklu úrræðaleysi í kerfinu bæði gagnvart móður sinni og aðstandendum. „Við vorum svo bjargarlaus og okkur fannst svo erfitt að fá engan stuðning. Oft voru samskiptin bara í gegnum hana, fársjúka manneskjuna sem hafði enga dómgreind til að meta hluti.“

Þar með er hún þó ekki að segja að allir hafi ekki lagt sig fram við að aðstoða. „Það voru allir að gera sitt besta en kerfið sjálft er ekki að virka. Ég hef sagt það áður að það þarf að hugsa þetta upp á nýtt og taka annað sjónarhorn.“

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá andláti móður hennar segist Dagný finna fyrir aukinni og opnari umræðu um geðræn veikindi. Til að leggja sitt af mörkum til opnari umræðu, auk þess að skrifa bókina, lét Dagný hluta af ágóða af bóksölunnar renna í að styrkja Hugrúnu sem er félag háskólanema sem fer í framhaldsskóla til að ræða um geðsjúkdóma.

Ef það tækist að bjarga einum væru þau sátt

Að skrifa söguna var að hennar sögn afar heilandi ferðalag og þó hún hafi grátið yfir hverri blaðsíðu sem skrifuð var segir hún það hafa verið gott. Bókina vann hún með tvíburabróður móður sinnar sem sagði að ef með útgáfunni tækist að bjarga einhverjum einum frá því að fara þessa leið væri hann sáttur. Viðbrögðin voru mjög sterk og Dagný lenti jafnvel í því í mjólkurkælinum í Hagkaup að ókunnugt fólk kom upp að henni til að ræða bókina og segja frá sinni reynslu.

Hún segir að enn gæti misskilnings í umræðunni um sjálfsvíg og meðal annars sá að sjálfsvíg sé val, sem Dagný segir af og frá. „Sjálfsvíg er ekkert val. Það er eiginlega akkúrat það sem gerist þegar þú hefur ekkert val,“ segir hún ákveðin. „Ég veit að ef mamma hefði haft val hefði hún valið að vera hjá okkur, að sjálfsögðu.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Dagnýju Maggýjar Gísladóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Ef þú lesandi tengir við einhverja af þeim erfiðleikum sem hér er lýst, fáðu hjálp. Talaðu við einhvern sem þú treystir. Hringdu til dæmis í Hjálparsíma Rauða krossins 1717, leitaðu til geðdeildar eða Píeta samtakanna.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Mamma stóð við þá ákvörðun að borða aldrei aftur“