Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fea, Birta og Fiskisund stærstu hluthafarnir

21.04.2021 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flugfélagið Play sem hyggst hefja áætlunarflug í júní birti í dag lista yfir stærstu hluthafa sína eftir nýafstaðið lokað hlutafjárútboð sem nam hátt í sex milljörðum íslenskra króna. Fea ehf. er stærsti hluthafinn með 21,25% hlut.

Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, tók nýverið við stjórnartaumum félagsins sem forstjóri og þá tók ný stjórn við eftir hlutafjárútboðið þar sem félagið safnaði sér hátt í sex milljörðum íslenskra króna eða 47 milljónum Bandaríkjadala að því er Markaðurinn greinir frá. 

Stjórnarformaðurinn Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, lagði tæpan milljarð króna í félagið. Það gerði Lífeyrissjóðurinn Birta einnig sem er næststærsti hluthafinn með 12,55%. Lífeyrissjóðurinn tók ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust en hlutur sjóðsins minnkaði þá úr um 7% í 1,35%.

Stærstu hluthafar Play eru eftirfarandi: 

  • Fea ehf. 21,25% í eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, eins eiganda Airport Associates, fyrrum þjónustuaðila WOW air.
  • Birta lífeyrissjóður 12,5%
  • Fiskisund ehf. 11,86%, í eigu Einars Arnar, Höllu Sigrúnar Hjartardóttur og Kára Þórs Guðjónssonar.
  • Stoðir hf. 8,37%

Þá eiga Brimgarðar ehf., Dalía, Akta sjóðir og Lífsverk lífeyrissjóður öll milli 3-5% hlut, Algildi, Attis, Vátryggingafélag Íslands, Alpha hlutabréfasjóður Íslandssjóða og IS Hlutabréfasjóður í eigu Íslandsbanka eiga innan við 2%. Aðrir hluthafa sem eru ótilgreindir eiga samtals 10,32%.