Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Fáum gríðarlega góðar viðtökur frá skuldurum“

21.04.2021 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri BPO-innheimtu á Íslandi segir að misskilnings gæti um kröfur sem fyrirtækið sendi skuldurum smálána í síðustu viku. „Allir greiðendur fengu tölvupóst um að það þyrfti að hafa samband við okkur og að þá myndum við fella niður dráttarvexti og lántökukostnað. Allir mögulegir ólöglegir vextir voru keyptir af BPO en verða ekki innheimtir,“ segir Guðlaugur Magnússon í samtali við fréttastofu.

Neytendasamtökin hafa gagnrýnt fyrirtækið harðlega fyrir að hafa ekki fellt niður lántökukostnaðinn og vextina þegar greiðslurnar voru innheimtar, heldur sent kröfu um fulla greiðslu á heimabanka. 

BPO Innheimta keypti kröfusafn smálánafyrirtækjanna Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla. 

Skuldarar þurftu að hafa samband

Guðlaugur segir það hafa legið fyrir að skuldarar þyrftu að hafa samband við fyrirtækið til þess að fá kostnaðinn felldan niður. Ekki hafi verið hægt að senda kröfur án lántökukostnaðar og dráttarvaxta, en að það hafi alltaf staðið til að breyta upphæðinni. Jafnframt hafi allir sem greiddu upphæðina að fullu fengið mismuninn þegar endurgreiddan. 

„Við erum að fá gríðarlega góðar viðtökur frá skuldurum og höfum fengið ótal tölvupósta þar sem fólk þakkar okkur fyrir góða þjónustu,“ segir hann. „Allir skuldarar sem voru í greiðsluskjóli og voru að borga mánaðarlega af þessum lánum, ég felldi það allt niður. Og allir sem munu hér eftir fara í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara og eru með kröfur frá þessum félögum, ég mun fella þær allar niður. BPO kemur þannig til móts við skuldara, það er það sem við viljum gera. Og flestir vilja borga þetta og eru þakklátir,“ segir hann. 

Hvernig getiði fellt niður þessa hluta af skuldunum?

„Það er í kaupsamningnum sem ég gerði og ég gef ekki upp hvernig hann er. En ég hef svigrúm til að koma til móts við aðila. Ég er að reyna að gera eins gott úr þessu og hægt er. Þess vegna er ég að bjóða fólki að borga eingöngu höfuðstól,“ segir hann.

Segir SMS-in koma frá óprúttnum aðila

Fréttastofa fjallaði fyrr í dag um SMS-skilaboð sem fjöldi fólks fékk um að það ætti ógreidda skuld og skyldi hafa samband við BPO. Í skilaboðunum var gefin upp heimasíða fyrirtækisins og símanúmer en margir þeirra sem fengu skilaboðin kannast ekki við að hafa nokkurn tímann tekið smálán. Guðlaugur segir að fyrirtækið hafi ekki sent sms-in heldur hafi óprúttinn aðili gert það. „Póst- og fjarskiptastofnun er með smsin og hafa staðfest að þetta var óprúttinn aðili, þetta var bara búið til, það þarf að skoða þetta,“ segir hann.