Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu

21.04.2021 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar í gær var ákveðið að vísa tveimur tillögum um nafn á nýju hrauni við Fagradalsfjall til umsagnar hjá Örnefnanefnd. Þær eru Fagradalshraun og Fagrahraun. Um 340 tillögur bárust að nafni á nýja hraunið í örnefnasamkeppni sem Grindavíkurbær stóð fyrir dagana 31. mars til 9. apríl.

„Niðurstaðan var sú eftir að hafa farið yfir þær hugmyndir sem bárust, sem voru 339, metið þetta og vegið, að hraunið skuli bera annað hvort heitið Fagradalshraun eða Fagrahraun,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Dalahraun, Geldingadalshraun og Ísólfshraun einnig nefnt

Hann segir þetta tillögurnar sem oftast voru nefndar í samkeppninni. Þá er ætlunin að nefna gígana einnig Fagradalsgíga eða Fögrugíga. Aðrar hugmyndir sem oft voru nefndar voru Dalahraun, Geldingahraun og Ísólfshraun, en Geldingahraun er þegar til í nágrenninu. Þá hefur hraunið einnig runnið í Meradali. 

Til er heimild sem vísar til þess að landnámsmaðurinn Ísólfur og fyrsti ábúandi á Ísólfsskála hafi verið heygður á tilteknum stað í Geldingadölum en Minjastofnun gekk úr skugga um að hana væri ekki að finna á þeim stað áður en hann fór undir hraun.

Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar og þjóðfræðingur, kom að samkeppninni. „Forliðurinn vísar til Fagradalsfjalls sem dregur nafn sitt af dal vestar í fjallinu og forliðurinn vísar einnig til Fagradalsfjallskerfisins sem er eitt af eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga. Hvað varðar Fagrahraun þá er rökstuðningur sá sami en vísar forliðurinn einnig til þess hve margir gengu að hrauninu til þess að berja fegurð þess augum,“ segir Eggert.

„Þetta voru alveg mjög flottar tillögur, mjög margar og hvaðanæva að úr heiminum á íslensku og örðum tungumálum,“ segir Eggert. 

Kórónuhraun, Ölmuhraun og Góuhraun

Eggert segir að margar tillögur hafi endurspeglað kórónuveirufaraldurinn sem er fólki greinilega hugleikinn svo sem Kórónuhraun, Covidhraun og Ölmuhraun. Einnig var stungið upp á að kenna gígana við þríeykið, Ölmu Möller landlækni, Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Víði Reynisson, yfirlögregluþjón almannavarna en hlutu þær tillögur ekki brautargengi. Þá var Góuhraun einnig vinsæl tillaga, sem einhverjir ferðalangar hafa líklega gætt sér á eftir gönguna í Geldingadali.

Nú er beðið eftir því að Örnefnanefnd skili áliti um tillögur að nöfnunum tveimur. 

Örnefnahefðin er mikilvæg

„Það er mikilvægt að halda í örnefnahefðina og varðveita örnefnin,“ segir Eggert. Þau séu tilfinningamál fyrir marga. Hann segir að almenningur sé farinn að þekkja örnefni betur og gosið verði vonandi til þess að fólk kynni sér betur söguna að baki örnefnum víða um land.