Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekki ástæða til að herða aðgerðir á þessari stundu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sóttvarnarlæknir telur ekki ástæðu til þess að herða aðgerðir innanlands að svo stöddu. Hann sé þó tilbúinn til þess að leggja fram slíkar tillögur ef ástandið versnar.

Tólf greindust með COVID-19 innanlands í gær og þar af voru tíu í sóttkví. Tvö smit greindust á landamærunum. Yfir fjögur þúsund og fimm hundruð sýni voru tekin í gær. Nú eru 786 í sóttkví og 120 í einangrun með virkt smit. Þrír eru á sjúkrahúsi með COVID-19. 

Á upplýsingafundi almannavarna í morgun sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að 75 manns hefðu greinst síðustu fjóra daga, þar af hefðu 58 verið í sóttkví.

„Og hér er um að ræða tengsl við þrjár hópsýkingar sem hafa verið til umfjöllunar síðastliðna daga. Stærsta hópsýkingin telur rúmlega 60 manns sem tengjast leikskólanum Jörfa og teygir sig víða, meðal annars í einn grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.“

Eina leiðin

Þórólfur sagði að smitrakning gengi hins vegar vel og að svo virtist sem hópsmitin væru nokkuð vel afmörkuð. Frekari smit gætu þó komið í ljós á næstu dögum.

„Næstu dagar munu skera úr um hvort tekist hafi að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. En ég minni á að nokkrir dagar þurfa að líða þangað til að hægt verður að fullyrða um slíkt. Á þessari stundu tel ég ekki ástæðu til þess að leggja fram tillögur um hertar aðgerðir innanlands, en er tilbúinn eins og áður hefur komið fram til þess að leggja fram tillögur ef ástand fer eitthvað versnandi. Það er því mikilvægt að allir passi sig áfram, forðist allar hópamyndanir, og virði allar sóttvarnarleiðbeiningar. Það er leiðin til að klára þessa hópsýkingu,“ sagði Þórólfur.