Barn smitaðist af COVID-19 á leikskólanum Álfheimum

21.04.2021 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Eitt barn greindist í gær með COVID-19 á leikskólanum Álfheimum á Selfossi. Leikskólinn hefur verið lokaður frá því á þriðjudag eftir að smit greindist hjá starfsmanni leikskólans og eru allir starfsmenn og börn á tveimur deildum af þremur í sóttkví.

Sunnlenska.is greinir frá þessu og Jóhanna Þórhallsdóttir leikskólastjóri staðfestir þessi tíðindi í samtali við fréttastofu. 

„Stór hluti barna og starfsmanna eru í sóttkví fram á mánudag. Þá fer allur hópurinn í skimun. Við vonum það besta,“segir Jóhanna. 

Verið að skoða hvort og hvernig skólastarfi verður háttað í næstu viku eftir að sóttkví lýkur. Leikskólinn var lokaður í dag og hann þrifinn og sótthreinsaður hátt og lágt. Jóhanna segir að allir starfsmenn hafi farið í skimun í gær og þar hafi ekki fleiri smit greinst, umfram þann sem greindist í byrjun vikunnar. Grunur kviknaði um að smit í 2. og 4. bekk í grunnskólanum Vallaskóla, sem er skammt frá Álfheimum, en enginn reyndist smitaður í skimun þar í gær.  Því var úrvinnslusóttkví þeirra nemenda aflétt og hefðbundið skólastarf fór þar fram í dag.