Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ástæða til að hafa áhyggjur af örlæti Kínverja í Afríku

21.04.2021 - 08:05
Kenyans line up to receive a dose of the AstraZeneca COVID-19 vaccine manufactured by the Serum Institute of India and provided through the global COVAX initiative, at Kenyatta National Hospital in Nairobi, Tuesday, April 6, 2021. (AP Photo/Brian Ingasnga)
 Mynd: ap
Afríkuríkjunum miðar hægt að því marki sínu að bæta lífskjör almennings. Eftir stöðugan vöxt síðustu áratuga eru erfiðleikar fram undan. En það er ekki vegna faraldursins heldur skuldavanda. Skuldum vafin eru sum þeirra að þrotum komin. Keníumenn vilja að alþjóðastofnanir hætti að lána stjórnvöldum í Keníu vegna óráðsíu og spillingar innan stjórnkerfisins. Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segir meiri ástæðu til að hafa áhyggjur af örlæti Kínverja í Afríku en lánastarfsemi alþjóðastofnana.  

Keníumenn hafa verið afar stórtækir síðustu ár og bætt hafnir, eflt samgöngur með bæði vegum og lestarteinum og ætlað að færa Keníu hratt til nútímans. Stærsta framkvæmdin og jafnframt sú dýrasta frá sjálfstæði Keníu var lagning lestarteina frá hafnarborginni Mombasa til Nairobi sem kostaði vel á fjórða milljarð bandaríkjadala og lauk árið 2017. Hún var fjármögnuð í tengslum við Belti og braut Kínverja, sem verður líklega eitt umfangsmesta verkefni aldarinnar, en stjórnvöld í Kína stefna að því að endurreisa hinn forna silkiveg og tengja saman Asíu, Afríku og Evrópu og stofna nýtt og áhrifamikið samfélags- og viðskiptakerfi. 

Efast um að stjórnvöld komi hreint fram

Framkvæmdirnar í Keníu auðvelda mjög bæði vöru- og fólksflutninga frá Mombasa til höfuðborgarinnar en þær kostuðu sitt. Framkvæmdin var miklu dýrari en sambærilegar framkvæmdir annars staðar og margir Keníumenn efast um að stjórnvöld hafi komið hreint fram. Fæstir efast um réttmæti framkvæmdarinnar og að hún muni reynast ábatasöm en hún var fjármögnuð að mestu með kínversku lánsfé. Samningar stjórnvalda við lánadrottna hafa ekki verið gerðir opinberir og því óttast margir Keníumenn að spilltir embættismenn fái greitt undir borðið í tengslum við framkvæmdina, eins og svo lengi hefur tíðkast í fjölda Afríkuríkja.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Lestarleiðin frá Mombasa til Nairobi var tekin í notkun í maí 2017. Hún er nærri 600 km löng en framkvæmdin kostaði rúma 3,6 milljarða bandaríkjadala.

Lítið gagnsæi við lántökur

Jörgen Levin, þróunarhagfræðingur hjá Norrænu Afríkustofnuninni, segir fagnaðarefni að Afríkuríkjunum standi til boða fjölbreyttir lánamöguleikar, en það þurfi að bæta regluverkið áður en ráðist er í miklar lántökur. Hann segir helsta áhyggjuefnið við lántökur frá Kína skortur á gegnsæi. Upplýsingar um mörg þessara lána liggi ekki fyrir og þau séu jafnvel ekki öll skráð. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa haldið því fram síðustu ár að Kínverjar reyni að lána Afríkuríkjunum sem allra mest, og ætli sér svo að taka yfir verðmætar auðlindir þegar ríkin geta ekki lengur greitt af lánunum.

Greiðslustöðvun Sambíu og fleiri fylgja

Þessu hafna stjórnvöld í Kína og segjast styðja uppbyggingu í Afríkuríkjunum, sem komi bæði íbúum álfunnar og Kínverjum vel. Síðustu tvö ár hafa Kínverjar dregið mjög úr lánveitingum í Afríku. Þær náðu hámarki árið 2015 þegar þær voru 28 milljarðar bandaríkjadala, en voru aðeins sjö milljarðar 2019. Kínverjar hafa lánað vel á annan tug Afríkuríkja fyrir stórum framkvæmdum síðastliðinn áratug. Eitt þeirra er Sambía en það varð fyrir áramót fyrsta ríkið til að óska eftir greiðslustöðvun, eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út, og fleiri standa tæpt, þar á meðal Angóla, Eþíópía og Kongó. 

„Hættið að lána Keníu“

Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti eftir páska um rúmlega tveggja milljarða bandaríkjadala lán til Keníu, til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins, sögðu íbúar hingað og ekki lengra. Hættið að lána Keníu, var herferð sem hófst á samfélagsmiðlum eftir páska, því margir óttast að ekki verði hægt að greiða til baka nema með skattahækkunum á íbúana. Skuldir Keníu hafa fjórfaldast frá 2013, landið skuldar nú rúmlega sjötíu milljarða bandaríkjadala. Skuldir eru nú nærri sjötíu prósent af landsframleiðslu, sem er vel viðráðanlegt fyrir ríkar þjóðir, en Kenía þolir ekki við lengi. Skattar hafa þegar verið hækkaðir og stefnt að frekari lántökum.

„Girðum heldur fyrir gripdeildirnar“

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segist hafa skilning á kvörtunum heimamanna en það sé ekki hægt að saka alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að gera lántakendur háða sér. Það séu ásakanir sem með réttu séu bornar á hendur Kínverjum. Keníumenn ættu því að hafa meiri áhyggjur af örlæti Kínverja og þeirra pólitíska tilgangi en alþjóðastofnana. Frekar ætti að þrýsta á stjórnvöld að bæta hagstjórnina og setja skýr skilyrði fyrir lántökum, í stað þess að hafna lánsfé. „Ef vandinn er ekki nógu góð meðferð á lánsfénu, þá skulum við bara bæta meðferðina. Það er þörf á lánsfé. Við skulum ekki neita okkur um féð á þeim grundvelli að spilltir embættismenn ræni hluta þess, girðum heldur fyrir gripdeildirnar. Ekki missa sjónar á því að bæta lífskjör fólksins,“ segir Þorvaldur. 

Kúvending í Washington

Þorvaldur segist bjartsýnn á framtíð Keníu og fleiri Afríkuríkja. Þá bjartsýni byggi hann meðal annars á þeirri stefnubreytingu sem sé að verða í Washington í Bandaríkjunum, bæði hjá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Núna hvetja þau lönd til þess að taka lán. Sömu lönd og þau hvöttu til þess að halda að sér höndum áður. Nú er líka hvatt til þess að verja miklu almannafé, ekki bara til að bregðast við efnahagsáhrifum faraldursins heldur líka til að bregðast við vanrækslu fyrri ára.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Höfuðborg Keníu Nairobi er ein stærsta borg Afríku og ein helsta verslunarborgin. Meirihluti íbúa býr í fátækrahverfum og atvinnuleysi er yfir sjötíu prósent.

Alvarlegur skuldavandi

Stjórnvöld í Keníu og fleiri Afríkuríkjum hafa brugðist við skuldavandanum með því að taka fleiri lán og gefa út evrópsk skuldabréf. Jörgen Levin varaði við því í byrjun árs 2019 að innan 4-5 ára stefndi í alvarlegan skuldavanda. Þá höfðu skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu að jafnaði aukist úr 20 prósentum í 50 á nokkrum árum. Átök og óstjórn höfðu sitt að segja í sumum ríkjanna, en víða, eins og til dæmis í Keníu hefur líklega verið farið of geyst. Kenía þurfti ekki lengur að reiða sig á neyðaraðstoð og við blasti hlaðborð lánaleiða, og stjórnvöld fóru þaðan með diskinn fullan. 

Evrópsk skuldabréf - Eyðslufyllerí Afríkuríkjanna

Uhuri Kenyatta, forseti Keníu, hefur varið skuldasöfnunina og sagt hana nauðsynlegan fylgifisk mikillar og hraðrar uppbyggingar. Staða Keníu sé ekki ósvipuð og annarra þegar kemur að hlutfalli skulda af landsframleiðslu. En skuldir eru ekki það sama og skuldir. Kaup og útgáfa evrópskra skuldabréfa hefur verið mjög vinsæl í Afríku síðastliðinn áratug. Svo mjög að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við því í fyrra sem kallað var eyðslufyllerí Afríkuríkjanna. Það myndi ekki gefast vel að treysta á skammtímalán með háum vöxtum til að greiða fyrir innviðaframkvæmdir sem skiluðu ábata hægt. Virði þessara skuldabréfa var meira milli áranna 2018 og 2019 en allra þeirra bréfa sem Afríkuríkin keyptu frá aldamótum til 2017. Sem sagt, það var keypt meira á einu ári en sextán árum þar á undan. Jörgen segir lánsfé nauðsynlegt til að ráðast í stórar framkvæmdir en það þurfi að fara varlega.

Afríka alltaf í ruslflokki

Skuldavandi og að greiða af háum skuldum hefur verið eitt helsta vandamál margra Afríkuríkja alveg frá því þau fengu sjálfstæði. Evrópsku skuldabréfin eru gott dæmi því Afríkuríkjunum standa ekki sömu kjör til boða og öðrum. Vaxtakostnaðurinn er líklega mesta hindrunin. Afríkuríkin greiða frá fimm og upp í sextán prósent vexti af evrópsku skuldabréfunum á meðan vextir í Evrópu og Bandaríkjunum eru í kringum núllið. Þrennt skýrir þetta háa vaxtastig. Vaxtakjörin eru slæm því lengi hefur verið þörf á fjárfestingum og flest gert til að laða að nýja fjárfesta. Þá hafa Afríkuríkin þurft að taka lán til skamms tíma, til að fjármagna verkefni sem tekur langan tíma að ljúka og tekjur af þeim ekki farnar að berast þegar kemur að skuldadögum. Þá eru flest þeirra í ruslflokki, að mati alþjóðlegra matsfyrirtækja. Afríkumatið hefur lengi verið gagnrýnt en matsfyrirtækin litlu breytt. Eitt skýrasta dæmið er Senegal. Það er eitt af fyrirmyndarríkjum Afríku þegar kemur að stjórnarfari en þar hafa verið þrenn friðsamleg valdaskipti frá því landið fékk sjálfstæði. Vöxtur í efnahagslífinu hefur að jafnaði verið um sex prósent síðastliðinn áratug en Senegal er enn í ruslflokki hjá matsfyrirtækjunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Virkjun Kongófljóts er skammt á veg komin en það eru aðallega fyrirtæki frá Suður-Afríku sem hafa verið að vinna að henni. Fjöldi ríkja á landamæri að fljótinu sem hefur tafið verkið.

Ísland tæpri öld á undan Afríkuríkjunum

Uppgangur hefur verið hægur á síðustu öld og það á sér ýmsar skýringar, sumar sögulegar og aðrar bundnar við hagstjórn og -skipulag sem hefur ekki gefist nógu vel. Sum völdu sér fyrirmynd í sóvéskum áætlunarbúskap frekar en markaðsbúskap Vesturlanda. Þetta tafði mörg þeirra en nú er uppgangur hraður. Þorvaldur Gylfason hefur borið saman sum Afríkuríkjanna á tuttugustu öld við Ísland í kringum 1900. Þá var fæðingartíðni svipuð hér og í Afríku, en þá eignuðust íslenskar og afrískar konur að jafnaði sex börn. Barnadauði var svipaður, þegar Kenía varð sjálfstætt 1964 dó þar fimmta hvert barn fyrir fimm ára afmælið, svipað og var hér í lok 19. aldar. Meðalævin í Afríku var svo um 40 ár 1960, sú sama og hér um 1900. Þá er rafvæðing Afríku enn skammt á veg komin, eins og hún var hér framan af tuttugustu öldinni. „Þetta er kunnuglegt líka úr Íslandssögunni. Halldór Laxness skrifaði brennandi greinar í Alþýðublaðið 1927 þar sem hann lýsti eftir raflýsingu sveitanna og hann fékk að ráða þessu, sveitirnar fengu rafmagn smám saman eftir að Halldór hóf þessa herferð. Sama þarf í Afríku og þar eru hæg heimatökin því að Kongófljót, stærsta fljót heimsins, nægir til að rafvæða alla Afríku ef menn virkja þar skynsamlega og Afríka ætti meira að segja afgangsrafmagn til þess að flytja til Evrópu ef þetta tækist,“ segir Þorvaldur. 

„Þau eiga eftir að blómstra“

Virkjun Kongófljóts hefur gengið hægt en hvort sem það verður virkjað að stórum hluta eða ekki er mjög bjart fram undan í Afríku. Þrátt fyrir að heimshagkerfið hafi orðið fyrir áföllum reglulega síðustu áratugi hafa mörg Afríkuríkjanna sloppið vel, einnig undan kórónuveirufaraldrinum þó þar geti brugðið til beggja vona á næstu mánuðum því aðeins rúmlega eitt prósent íbúa Afríku hefur fengið bólusetningu, samanborið við um helming Bandaríkjamanna. Unnið hefur verið að því lengi að treysta viðskipti í Afríku og það hefur skilað miklum árangri. Fríverslunarsamningur Afríkuríkjanna var staðfestur í byrjun þessa árs og tekur gildi í skrefum en hann auðveldar viðskipti og eykur hagsæld á komandi árum. Jörgen segir að með tilkomu hans eigi Kenía, með sitt vaxandi hagkerfi og öflugu innviði, eftir að blómstra. „Sum lönd hagnast meira á því en önnur. Þau sem eru með fjölbreyttan efnahag og öflugan iðnað, eins og til dæmis Kenía, þau eiga eftir að blómstra og við eigum eftir að sjá marga kosti þessa fríverslunarsamnings koma fram á næstu árum,“ segir Jörgen Levin.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Þriðjungur íbúa sunnan Sahara-eyðimerkurinnar er enn ólæs og það ætti að vera forgangsmál hjá yfirvöldum ríkjanna þar að efla menntun og læsi.

Læsi, lýðheilsa og lýðræði

Álfan er hratt vaxandi efnahagsveldi og búist er við að mannfjöldi þar eigi eftir að tvöfaldast fyrir miðja öldina. Íbúar verða nærri tveir og hálfur milljarður og vinnandi hendur hvergi fleiri. Og það er því mikilvægast, óháð lántökum og skuldavanda, að huga að mannauði en þriðjungur íbúa sunnan Sahara er enn ólæs. Bæði Þorvaldur og Levin segja slíka stefnu þá bestu sem Afríkuríkin geti valið sér núna. „Læsi, lýðheilsa og lýðræði, þetta er lykillinn sem við bárum gæfu til að nota til að opna okkar skrár, í Evrópu og á Íslandi og þetta er það sem framsýnt fólk í Afríku horfir á og því skal takast að gera það á þessari öld það sem okkur tókst að gera á þeirri síðustu,“ segir Þorvaldur.