Vestlæg átt í dag, skýjað og éljagangur norðaustantil

20.04.2021 - 06:46
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Veðurstofan spáir vestlægri átt í dag, golu eða kalda, skýjað með köflum og éljagangur einkum norðaustantil á landinu. Hiti verður yfir frostmarki, tvær til sex gráður að deginum. Gasmengun berst því til austurs frá gosstöðvunum.

Annað kvöld og aðra nótt verður vindur suðlægari og má búast við að gas berist í átt að höfuðborgarsvæðinu.

Á morgun má búast við suðlægari, skýjaveðri um mest allt landið og vætu af og til. Heldur hlýrra verður í veðri en í dag og yfirleitt þurrt fyrir austan. 

Á fimmtudag, sumardaginn fyrsta, bætir svo í úrkomu á vesturhelmingi landsins, búast má við rigningu á láglendi en víða snjókomu til
fjalla.

Þar sem best lætur nálgast hiti tíu stig yfir daginn þar sem best lætur en verður nálægt frostmarki yfir nóttina.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þjóðsagan um að ef sumar og vetur frjósi saman viti það á gott sumar sé orðin svolítið afbökuð á okkar tímum þar sem fólk flest vonist eftir sólríku og hlýju sumri. 

Fyrr á tímum sé líklegra að fólk, sem flest var bændur hafi óskað sér hæfilegrar úrkomu enda enda grasspretta mikilvægust fyrir afkomuna á þeim tíma.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV