
Undanþágubeiðni verður að berast 2 dögum fyrir komuna
Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir 1000 nýsmit á hverja 100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi.
Það nægir ef ákveðin svæði eru með þetta hátt nýgengi til að landið allt teljist há-áhættusvæði. Þetta eru lönd eins og Svíþjóð, Pólland og Frakkland.
Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 verður sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu. Sú beiðni verður að hafa borist tveimur dögum fyrir komuna. Sama gildir um þessi lönd; ef ákveðin svæði eru með þetta hátt nýgengi telst landið allt áhættusvæði.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að markmið þess sé að skjóta skýrri lagastoð undir þá ráðstöfun að skylda ferðamenn til dvalar í sóttvarnahúsum sem koma frá tilteknum svæðum.
Sömuleiðis gerir frumvarpið dómsmálaráðherra kleift að takmarka ónauðsynleg ferðalög hingað til lands frá þessum sömu svæðum.
Reiknað er með að frumvarpið verði afgreitt strax á morgun þótt stjórnarandstaðan hafi viðrað ákveðnar efasemdir í fréttum RÚV í kvöld. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kallaði það fúsk og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði aðgerðirnar gera lítið sem ekki neitt.
Í greinargerðinni er varpað ljósi á hvers vegna sé nauðsynlegt að herða enn frekar tökin. 118 mál hafi komið til kasta lögreglu vegna brota á sóttkví frá því að faraldurinn hófst í lok febrúar á síðasta ári, þar af eru 24 á þessu ári. „Öll málin sem upp hafa komið á árinu 2021 tengjast landamærunum, “ segir í greinargerðinni.
Til þess að draga úr líkum á því að smit berist til landsins við landamærin sé talið nauðsynlegt að takmarka sérstaklega ónauðsynleg ferðalög hingað til lands frá svæðum sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði.
Frumvarpinu er ætlað að færa stjórnvöldum skilvirkari heimildir í baráttunni við COVID-19. „Ávinningur þess að frumvarpið verði samþykkt er mikill fyrir almannahagsmuni.“
Gert er ráð fyrir að lögin öðlist strax gildi. Hægt er að skoða frumvarpið hér.