Umsvif lífeyrissjóða kalli á auknar kröfur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að samþjöppun lífeyrissjóða á markaði sé orðin alltof mikil og það stefni í vandræði. Það kunni ekki góðri lukku að stýra að sömu aðilar eigi hluti í öllum helstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Þetta kom fram á fundi seðlabankastjóra með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun þar sem farið var yfir skýrslu fjármálaeftirlitsnefndar. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, sat einnig fundinn.

Ásgeir segir að stærð og umsvif lífeyrissjóðanna kalli á auknar kröfur.

„Við erum með hugtakið að vera kerfislega mikilvægur sem er beitt um bankana til að þeir verði að hlýða ákveðnum reglum. Við viljum gera svipaða kröfu til lífeyrissjóðanna eins og við gerum til bankanna. Þetta á við um allt. Hæfi stjórnarmanna. Að þessir tilnefningaraðilar, aðilar vinnumarkaðarins, átti sig á því að þetta eru ekki þeirra peningar sem lífeyrissjóðirnir eru að sýsla með heldur peningar sjóðsfélaga. Og það eru ákveðnar reglur um góða stjórnarhætti sem við erum að reyna að framfylgja,“ segir Ásgeir.

Sjóðirnir eigi enn fremur eignarhluti í stærstu fjármálafyrirtækum landsins.

„Þetta er alltof mikil samþjöppun í kerfinu sem við erum að fara að lenda í vandræðum með. Ef þið skoðið hlutahafalistann eins og þá aðila sem við erum að fylgjast með, eftirlitsskylda aðila tryggingafélög og svo framvegis, þá eru sömu lífeyrissjóðirnir í öllum þessum fyrirtækjum,“ segir Ásgeir.

„Ég held að flestir sjái að það kann ekki góðri lukku að stýra ef sami aðili er með hlut í öllum fjármálafyrirtækjum og er, eins og lífeyrissjóðirnir, sjálfur virkur á fjármálamarkaði,“ segir Ásgeir.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV