Umferðarteppa á Selfossi þegar 300 manns fóru í skimun

20.04.2021 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Styrkár Sturludottir - RÚV
Umferðarteppa myndaðist í miðbæ Selfoss eftir hádegi í dag þar sem mikil ásókn var í COVID-sýnatöku í bílakjallara verslunarmiðstöðvarinnar Kjarnans. Met var slegið hjá Heilsugæslunni á Selfossi sem tók rúmlega 300 sýni í dag.

Lögreglan lokaði götum og stýrði umferð

Sunnlenska.is greindi frá þessu í dag en þar segir að röðin hafi náð út á Eyraveg, sem varð til þess að Suðurlandsvegur stíflaðist. Náði bílaröðin frá Ölfusárbrú langleiðina að bæjarmörkunum við Biskupstungnabraut. Þá hafi lögreglan brugðið á það ráð að loka götum og stjórna umferð til að greiða úr flækjunni. Íbúi á Selfossi sem fréttastofa ræddi við þurfti að bíða í bílaröð í 45 mínútur til að komast að í sýnatöku í dag.

Smit á leikskólanum

Leikskólinn Álfheimar á Selfossi var lokaður í dag eftir að starfsmaður þar greindist með kórónuveiruna. Allir starfsmenn leikskólans voru sendir í sýnatöku. Eins má reikna með að margir sem tengjast leikskólanum á einn eða annan hátt hafi farið í skimun í dag. 

„Þetta er algjört met hjá okkur“

Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni á Selfossi segir að sýnatakan hafi gengið mjög vel í dag en alls voru tekin 302 sýni. „Þetta er algjört met hjá okkur, á stórum dögum höfum við verið að taka rúmlega 100 sýni en þetta var meira en helmingi meira. Þetta gekk samt smurt og við vorum rosalega vel mönnuð,“ segir Margrét. 

Mynd með færslu
 Mynd: Steinar Stefáns - RÚV