Sóttvarnalæknir bjartsýnn á framgang bólusetninga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst bjartsýnn á að vel gangi með bólusetningar á næstunni. Hann segist búast við að karlmönnum sextugum og yngri verði gefið bóluefni AstraZeneca. 

 

„Áhættan af þessum segamyndunum hefur einkum sést hjá konum yngri en 55 ára þannig að við gætum farið til dæmis undir 60 ára hjá karlmönnum.“  Þórólfur segir árangurinn í bólusetningum fara eftir því hversu mikið bóluefni berst til landsins. Hann kveðst vongóður um að vel gangi.

„Framleiðendur eru að gefa í þannig að útlitið er nokkuð bjart eins og staðan er núna. En auðvitað vitum við að ekki mikið þarf að koma til svo eitthvað bakslag verði en þá tökum við bara á því ef það kemur.“

Hann segir að ekki skipti máli þótt árgangarnir séu fjölmennir en fjöldi fólks fái sprautu í þessari viku og næstu. Um 12 þúsund hafi verið bólusett í vikunni og Þórólfur býst við að það verði annað eins í næstu viku.

Þórólfur segir forgangsraðað í bólusetningar eftir sjúkdómum en sú röðun sé ekki endilega klippt og skorin.

„Auðvitað getur það verið að einhver yngri fái bólusetningu á undan einhverjum sem er eldri. Það er aldrei hægt að tryggja það í raun og veru en við verðum bara að halda áfram með það magn sem við erum með.“

Hann segist hafa skiling á þeim metingi sem myndist milli hópa sem vilji komast umsvifalaust í bólusetningu. „En við reynum bara að gera þetta eins sanngjarnt og mögulegt er samkvæmt reglugerðinni.“