Simpson-fjölskyldan uppsker reiði Morrisseys

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - EPA/2021 by 20th Television

Simpson-fjölskyldan uppsker reiði Morrisseys

20.04.2021 - 14:07

Höfundar

Morrissey bregst illa við því að vera hafður að skotspæni í The Simpsons, þar sem hann er teiknaður upp sem kjötæta í yfirvigt með vafasamar skoðanir á innflytjendamálum. „Í veröld sem er heltekin af lögum gegn hatursorðræðu eru engin lög sem vernda mig,“ segir tónlistarmaðurinn.

Í nýjasta Simpson-þættinum, í sjónvarpsþáttaröðunum þrautseigu, verður Lisa Simpson hugfangin af þunglyndum, breskum tónlistarmanni sem heitir Quilloghby. Hann er herskár grænkeri og var áður í hljómsveit sem hét The Snuffs. Draumórar Lisu verða að engu þegar hún kemst að því að goðið hefur með tíð og tíma orðið að beiskri kjötætu í þyngri kantinum og andstæðingi innflytjenda.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - EPA/2021 by 20th Television
Lisa Simpson og Quilloghby.

Breski leikarinn Benedict Cumberbatch ljær persónunni rödd sína en það fer ekki á milli mála að fyrirmyndin er Morrissey, sem fór fyrir hljómsveitinni The Smiths á sínum tíma og er sjálfur herskár grænkeri sem gagnrýndur hefur verið fyrir skoðanir sínar á innflytjendamálum og ummæli um þjóðabrot.

Veltir fyrir sér lögsókn

Morrissey og umboðsmaður hans tóku til varna á samskiptamiðlum og á vef listamannsins skömmu eftir að þátturinn var sýndur. „Hatrið sem höfundar The Simpsons sýna mér býður augljóslega upp á lögsókn, sem yrði mér þó alltof dýr til að af henni geti orðið,“ skrifar Morrissey í löngum pistli. „Þú ert einkum fyrirlitinn ef tónlist þín verkar sterkt og á fallegan hátt á fólk, þar sem þess er ekki lengur krafist af henni. Það versta sem þú getur gert árið 2021 er að valdefla aðra. Það er ekkert pláss fyrir fólk með miklar tilfinningar í nútímatónlist,“ bætir hann við.

Í pistlinum kveinkar Morrissey sér undan umfjöllun fjölmiðla og stöðu málfrelsis. „Viðbjóðurinn sem hefur verið ausið yfir mig gæti drepið heila vísundahjörð ... Heimurinn hefur orðið að dáleiðandi óreiðu og við verðum að sleppa taki á honum og snúast með vegna þess að málfrelsi er ekki lengur til ... Í veröld sem er heltekin af lögum gegn hatursorðræðu eru engin lög sem vernda mig.“

Rætni og rasismi

Peter Katsis, umboðsmaður Morrisseys, segir í tilkynningu á Facebook að þátturinn sé rætinn og rasískur. „Merkilegt hvernig ritun þáttanna hefur hrakað síðustu ár,“ segir hann. „Það er eitt að hæðast að fólki en þegar þáttur leggst svo lágt að beita harkalegum og hatursfullum brögðum eins og að teikna Morrissey með vömbina vellandi út úr skyrtunni (þegar hann hefur aldrei nokkru sinni litið þannig út á ferlinum), veltir maður fyrir sér hverjir séu rætnir og rasískir í raun.“

epa05021221 British singer Morrissey performs during a concert part of his 'Lightning Tour' at the Movistar Arena in Santiago de Chile, Chile, 11 November 2015.  EPA/SEBASTIAN SILVA
 Mynd: EPA
Morrissey á tónleikum 2015.

Í tilkynningunni eru nýjustu vendingar í þáttunum einnig gagnrýndar. Hank Azaria, sem hefur ljáð Apu Nahasapeemapetilon rödd sína áratugum saman, baðst nýverið afsökunar á þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af fólki af indverskum uppruna í þáttunum. Þetta er sagt hræsnisfullt í tilkynningu umboðsmanns Morrisseys. „Nýleg afsökunarbeiðni Hanks Azaria til gjörvallrar indversku þjóðarinnar, fyrir þátt sinn í „kerfisbundnum rasisma“, segir allt sem segja þarf.“

Í pistli Morrisseys stendur að auki: „Falskar kenningar um kynþætti eru nú algengasta (og leiðigjarnasta) hliðin á allri gagnrýni. Þannig verður það áfram þar til allar ásakanir um rasisma verða ólögmætar.“

Morrissey með skvettu af Ian Curtis

Tim Long, einn af höfundum þáttarins umrædda, sagði í viðtali við Variety að persónan væri ekki aðeins byggð á Morrissey. „Hún er vissulega Morrissey-ísk, með smáskammti af Ian Curtis úr Joy Division kannski, ásamt mörgum öðrum.“ 

Long er mikill aðdáandi breskrar indítónlistar frá níunda áratugnum og rifjar í viðtalinu upp þegar hann sá The Smiths á tónleikum, það hafi haft djúpstæð áhrif á hann. „Ég hef oft séð Moz [Morrissey] á tónleikum síðan þá, síðast í Hollywood Bowl árið 2018.“ Umræddur þáttur hafi orðið til út frá samtali hans og framleiðanda þáttanna um áhrifin sem tónlist hefur á unglinga sem eru utanveltu.

Morrissey hefur verið gagnrýndur mjög síðustu ár fyrir hin ýmsu ummæli. 

Hann hefur sagt að halal-slátrun, það er slátrun samkvæmt trúarhefðum strangtrúaðra múslima, sé af hinu illa, hnýtt í Sadiq Khan, borgarstjóra Lundúna, fyrir að „geta ekki tjáð sig almennilega“ og komið Kevin Spacey og Harvey Weinstein til varnar vegna ásakana um kynferðisbrot. Árið 2018 lýsti hann yfir stuðningi við öfgahægriflokkinn For Britain.

Tengdar fréttir

Tónlist

Við þurfum að ræða Morrissey

Stjórnmál

Kynningarspjöld Morrissey fjarlægð í Liverpool

Stjórnmál

Heimsins elsta plötubúð hafnar Morrissey

Tónlist

Umdeildur og misskilinn, dýrkaður og dáður