Segja COVID hafa eyðilagt allt það skemmtilega í lífinu

Mynd: hallahardar / hallahardar

Segja COVID hafa eyðilagt allt það skemmtilega í lífinu

20.04.2021 - 14:40

Höfundar

Í næsta mánuði klára fjórir þrettán ára félagar barnaskólann og hefja nám í gagnfræðaskóla. Þeir eru sammála um að þá taki við bjartari tímar með meira frelsi en barnaskólinn bjóði upp á. Og vonandi engu COVID.

Félagarnir Þorsteinn Stefánsson, Mikael Köll Guðmundsson, Heiðar Dagur Hafsteinsson og Dhanus Madeiah svara nokkrum spurningum Samfélagsins á Rás 1 um lífið á tímum farsóttar, símanotkun, lestur drengja og breytingarnar fram undan. „COVID eyðilagði allt það skemmtilega sem maður gerir í lífinu, nema náttúrulega það að vera í símanum. Eins og til dæmis að fara í kvöldsund, keilu og bíó með vinum sínum. Svo ef það var rosalega slæmt þá mátti maður ekki hitta vini, nema kannski bara þrjá. Það var leiðinlegt,“ segir Heiðar Dagur.

„Þetta er dáldið pirrandi. Það er ekkert mikið að gera. En maður venst að vera með sjálfum sér,“  segir Þorsteinn og bendir á að það geti verið gott og lærdómsríkt, sérstaklega fyrir mann eins og hann sem sé frekar óþolinmóður að eðlisfari. „Já, maður lærði að dunda sér,“ tekur Heiðar undir. „Ég var nú bara heima að horfa á sjónvarpið, ekki að gera neitt, og í símanum,“  segir Dhanus.

Spurðir út í símanotkun, sem svo margir hafi áhyggjur af þessi misserin, segja strákarnir þær áhyggjur verða óþarfar. Síminn sé fyrst og fremst skemmtitæki. Þar sé ekki einungis hægt að nálgast vini sína í spjalli og leika tölvuleiki, heldur einnig horfa á fyndin myndbönd, en allir eiga strákarnir það sameiginlegt, þegar kemur að netinu, að sækja þar helst í fyndið efni sem komi þeim til að hlæja.

Þegar samtalið berst að lestri og þeirri staðreynd að sífellt fleiri börn, sérstaklega drengir, lesi sér ekki til skemmtunar, eru vinirnir sammála um að bækur séu fyrst og fremst fyrir gamalt fólk. Einnig benda þeir á að þrátt fyrir að þeir taki sér ekki bók í hönd, heldur noti síma, þá séu þeir oft að lesa. Þeir leiti sér alls kyns upplýsinga í símunum og séu líka með forrit sem hjálpi þeim að læra ný tungumál. „Í gamla daga, þegar fólk var ekki með snjallsíma, þá hafði það ekkert annað að gera en að lesa. Nú velur maður bara það sem er skemmtilegra,“ segir Heiðar. „Það eru heldur engar skemmtilegar bækur á bókasafninu í skólanum,“ segir Þorsteinn og strákarnir taka undir. Allt sé frekar grátt og svart á bókasafninu.

Vinirnir eru spenntir fyrir sumrinu, þá ætli þeir fyrst og fremst að skemmta sér með vinum sínum, vera úti í góða veðrinu og jafnvel vinna sér inn einhvern pening. „Og við vonum að COVID fari sem fyrst. Það þarf að fara að klára þetta.“ 

Rætt var við þá Þorstein Stefánsson, Mikael Köll Guðmundsson, Heiðar Dag Hafsteinsson og Dhanus Madeiah í Samfélaginu á Rás1.