Segir sóttkvíareftirlit í skötulíki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Búist er við því að ríkisstjórnin ræði á fundi sínum á eftir hvernig tryggja megi lagastoð fyrir því að skikka fólk í sóttkví í sóttkvíarhúsi. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir að bregðast verði við strax því eftirlit með þeim sem áttu að vera í sóttkví hafi brugðist.

„Landamærin leka, smitin koma þar og okkur tekst ekki að hafa eftirlit með því að fólk sé að halda sóttkví, það eftirlit virðist vera í skötulíki því miður, við bara ráðum ekki við það. Það kom í ljós að lögreglan hafði verið að hringja í viðkomandi sem virðist hafa borið þetta smit inn og viðkomandi svarar ekki í síma. Og hvað þá, þá er ekki neitt. Ég er ekkert að segja að það eigi að loka alla inni, ég er bara að segja að þetta virkar ekki eins og þetta er núna. Það er augljóst,“ sagði Helga Vala í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Samfylkingin vonast til að fá leyfi frá þingforseta til að leggja fram frumvarp á þingi þar sem ráðherra er gefin heimild fyrir því að skylda fólk til dvalar í sóttkvíarhúsi.

Héraðsdómur úrskurðaði í upphafi mánaðarins að ekki væri lagastoð fyrir reglugerð sem skikkaði fólk í dvöl í sóttkvíarhúsi sem gátu verið í sóttkví heima hjá sér. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að þetta verði rætt í ríkisstjórn í dag og mögulega komi eitthvað nýtt frá heilbrigðisráðherra, en það sé ljóst að efla þurfi eftirlitið. „Norðmenn og fleiri sem eru með þessa leið, þar eru þeir að lenda í því að þeir sem eru að brjóta sóttkví og eru ástæðan fyrir því að við viljum skikka alla í sóttkví, þeir strjúka bara úr sóttvarnahúsi. Þeir sem eru komnir inn í landið og í einangrun þeir eru að brjóta einangrunina þó þeir hafi ekki verið skikkaðir í sóttvarnahús og annað slíkt. Við þurfum bara að gera það sem virkar, gera það sem dugar til og horfa á heildarmyndina en ekki trúa því að einhver ein lausn dugi til,“ sagði Vilhjálmur. 

Tuttugu og sjö greindust með kórónuveiruna í fyrradag, þar af voru 25 í sóttkví. Yfirvöld telja að hraða útbreiðslu smita á síðustu dögum megi rekja til tveggja sóttkvíarbrota þar sem farþegar virtu ekki fimm daga sóttkví eftir komuna til landsins.