Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir af og frá að borgin hafi ekki vitað af asbesti

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir af og frá að Reykjavíkurborg hafi ekki verið kunnugt um að asbest væri í húsnæði gömlu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi.

Húsnæðið var leigt út til listamanna og varð asbestsins vart þegar unnið var við endurnýjun þess. Asbest veldur ekki skaða sé ekki er hróflað við því, ekki borað í það eða mulið úr því. 

Valgerður bendir á að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi varað við tilvist asbestsins á fundi borgarráðs þegar samþykkt var að leigja húsnæðið. Það hafi verið gert bæði munnlega og skriflega.

Á fundi ráðsins 1. október síðastliðinn lögðu fulltrúar flokksins fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja tillöguna með þeim fyrirvara að húsnæðið uppfylli lágmarkskröfur Vinnueftirlitsins, heilbrigðiseftirlitsins og eldvarnareftirlitsins um heilbrigðisráðstafanir og öryggi.“

Í bókun meirihlutans, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, á sama fundi segir að húsin séu fjölbreytt og í misjöfnu ástandi. Valgerður segir það staðfesta viðurkenningu meirihlutans á að húsin séu ekki í lagi.

Árið 2003 gerði Héraðsdómur Reykjavíkur Áburðarverksmiðjunni að greiða bætur til dánarbús manns sem reyndist vera með asbest í lungum eftir 40 ára starf í verskmiðjunni.