Rúmlega 2.100 skimaðir og 5.600 bólusettir

20.04.2021 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Rúmlega 2.100 manns fóru í COVID-19 sýnatöku hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, um sjö hundruð færri en í gær. „Þetta gekk mjög vel og það mynduðust ekki jafn miklar biðraðir í dag og í gær,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Þrír voru utan sóttkvíar af þeim 21 sem greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Nú eru 517 í sóttkví en þau voru 386 í gær. Búist er við að nokkur fjöldi fari í sýnatöku á morgun.

Þá voru 5.600 einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma bólusettir með bóluefni Pfizer í Laugardalshöllinni í dag. Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands spiluðu undir. „Þetta rann ljúft í gegn undir tónum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þetta voru litlar sveitir sem komu klukkutíma í senn þrisvar sinnum yfir daginn,“ segir Ragnheiður.

„Fólk tók mjög vel í þetta og klappaði eins og þetta væru tónleikar. Það var æðislegt,“ segir hún. Á morgun verður haldið áfram að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma í Laugardalshöllinni, en þá með bóluefni Moderna og án tónlistar.

„Það var svona sérstakt í dag en þegar við færum okkur yfir í gömlu höllina erum við komin með svið. Það er aldrei að vita nema einhver gefi sig fram til að vera með eitthvað skemmtilegt. Það er alveg vel þegið,“ segir Ragnheiður.