Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ruglandi fundur og fúsk, segir stjórnarandstaðan

Mynd með færslu
 Mynd:
Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna voru ekki á eitt sáttir við þær hertu aðgerðir á landamærunum sem kynntar voru á blaðamannafundi í Hörpu síðdegis í dag. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kallaði þær fúsk og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði þær frekar víkka út heimildirnar heldur en hitt. „Þetta gerir lítið sem ekkert.“

Ríkisstjórnin blés til fundar í Hörpu síðdegis og kynnti þar aðgerðir á landamærunum sem eiga að gilda næstu fimm vikur. Von er á frumvarpi í kvöld og reiknað er með að það verði afgreitt á morgun.

Aðgerðirnar fela meðal annars í sér að farþegar frá löndum sem eru með þúsund smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur þurfa að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli.  Það nægir að svæði innan einhvers lands sé með svo hátt nýgengi til að landið allt verði metið há-áhættusvæði. Þá gilda sömu reglur um farþega frá löndum með nýgengi yfir 750 smit en þeir geta sótt um undanþágu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í kvöldfréttum RÚV að það væri ágætt að sjá ríkisstjórnina hreyfast eftir að flokkurinn lagði fram sitt frumvarp um skyldu til að dveljast á sóttkvíarhóteli.  Ríkisstjórnin væri bara ekki að gera nóg heldur hreinlega að víkka út heimildirnar. „Þetta gerir lítið sem ekkert.“

Undir það tók Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem rifjaði upp að hún hefði talað fyrir því í fjórtán mánuði að landamærunum yrði nánast lokað og að öllum sem kæmu til landsins yrði gert að vera á sóttkvíarhóteli. „Þetta er bara fúsk.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að það hefði nánast verið óþarfi að halda fundinn í dag. Hann hefði sýnt hversu mikið samhengi væri milli bóluefnis og aðgerða yfirvalda. „Fundurinn var bara áminning um það; að þetta snýst um bólusetningu og þar þarf að bæta í.“

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, sagði fundinn hafa verið ruglandi. Flokkurinn væri fylgjandi harðari aðgerðum á landamærunum svo lengi sem þær aðgerðir stæðust lög.  Þegar valið stæði milli þess að herða aðgerðir á landamærunum eða innanlands væri niðurstaðan augljós. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði leikskipulag ríkisstjórnarinnar vera farið að þvælast fyrir henni. Nú væri komið fram í framlengingu farsóttarinnar og því væri mikilvægast að fólk stæði saman.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV