Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öllum takmörkunum innanlands gæti verið aflétt í júní

Mynd með færslu
Erlendum ríkisborgurum, búsettum hér á landi, hefur fjölgað. Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Öllum takmörkunum innanlands verður aflétt þegar búið er að verja stærstan hluta fullorðinna með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni. Þetta kemur fram í glæru sem birt er á vef Stjórnarráðsins. Miðað við bjartsýnustu áætlanir bóluefnaframleiðanda gæti það orðið í júní þegar stefnt er að því að 67 prósent Íslendinga, 16 ára og eldri, verði búnir að fá fyrri skammtinn.

Glærur frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar voru birtar samhliða fréttatilkynningu um hertar aðgerðir á landamærunum. Í þeirri síðustu er tekið afdráttarlaust til orða:

„Öllum takmörkunum innanlands verður aflétt þegar búið er að verja stærstan hluta fullorðinna með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni.“

Miðað við spár og upplýsingar frá bóluefnaframleiðendum gæti því markmiði verið náð eftir einn og hálfan mánuð eða 1. júní. Því á einni glærunni er stefnt að því að 67 prósent Íslendinga, 16 ára og eldri, hafi fengið fyrri skammtinn. Allir á þessum aldri eiga að vera búnir að fá fyrri skammtinn 1. júlí.

En landsmenn þekkja það orðið vel að óvissan er eina vissan í farsóttinni og reynslan hefur sýnt að það getur brugðið til beggja vona þegar bóluefni eru annars vegar. 

Fjögur bóluefni hafa fengið skilyrt markaðsleyfi hér á landi og verið er að nota þrjú þeirra; Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Lyfjastofnun Evrópu skilaði í dag tilmælum um fjórða bóluefnið frá Janssen en engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort og þá hvenær það bóluefni verður notað hér á landi.  Aðeins þarf eina sprautu af því bóluefni og von er á 4.800 skömmtum til landsins í þessum mánuði. 

En það er full ástæða til bjartsýni því von er á 244 þúsund skömmtum frá Pfizer í maí, júní og júlí. Þá hefur ráðuneytið uppfært afhendingaráætlun frá Moderna sem ætlar að senda 21.120 skammta í maí og júní. Ekki liggur fyrir staðfest afhendingaráætlun frá AstraZeneca eða Janssen fyrir þessa sömu mánuði. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV