Okkar að tryggja að stofnanir fari að lögum

20.04.2021 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fjallaði í morgun um skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air í mars 2019 og hefur trúnaði um efni skýrslunnar verið aflétt. Þar eru gerðar margvíslegar athugasemdir við verklag Samgöngustofu. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að Samgöngustofa hafi ekki sinnt fjárhagslegu eftirliti nægilega vel og fyrst vakin athygli á því 2017. Þetta sé hluti þeirrar ástæðu að ákveðið var að auglýsa starf forstjóra 2019.

Ríkisendurskoðun skoðaði aðkomu Samgöngustofu og Isavia að starfsemi og rekstri WOW air. Hvorki eru gerðar athugasemdir við aðkomu ISAVIA né eftirlit Samgöngustofu er lítur að flugöryggi. Hins vegar er Samgöngustofa harðlega gagnrýnd fyrir það hvernig fjárhagslegu eftirliti með WOW air var háttað. Í skýrslunni kemur fram að strax í maí 2018 hafi Samgöngustofa átt að herða eftirlit með flugfélaginu enda þá þegar komnar fram vísbendingar um að það ætti í meiriháttar fjárhagsvandræðum. Það var ekki fyrr en í september það sama ár sem Samgöngustofa, eftir ítrekaðar óskir samgönguráðuneytisins, hóf ítarlega úttekt á rekstrinum. Þá kemur fram að stjórnvöld hafi efast um getu Samgöngustofu til að sinna fjárhagslegu eftirliti. „Við allavega mátum það svo að það væri ekki verið að sinna hinu fjárhagslega eftirliti þó svo að flugöryggi væri í góðum málum allan tímann. Þannig að allt frá því í nóvember 2017 þá höfum við vakið athygli á því og haft frumkvæði að því að fylgja því eftir hvort Samgöngustofa fylgdi því eftir sem við vildum að yrði gert,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í hádegisfréttum. 

Þá veitti Samgöngustofa ráðuneytinu misvísandi upplýsingar þegar ráðuneytið fór fram á að Samgöngustofa gerði ítarlega úttekt á rekstri WOW því Samgöngustofa svaraði því til að slík úttekt væri þegar hafin. Það var hins vegar rangt því úttektin hófst ekki fyrr en tveimur vikum eftir að fyrirmælin bárust. Ríkisendurskoðun segir þetta ótækt og það sé alvarlegt að uppi hafi verið ágreiningur hafi verið milli samgönguráðuneytis og Samgöngustöfu um hvernig bæri að haga eftirliti með svo þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki á víðsjáarverðum tímum í rekstri þess. „Við tókum á því hér með stigvaxandi þunga sem endaði með því að við sendum Samgöngustofu tilmæli síðla sumars 2018 og eftir það fóru þessir hlutir loksins í það horf sem við töldum ásættanlegt. Eftir sem áður er það auðvitað sjálfstæð stofnun sem fjallar um sín mál en það er okkar verkefni að tryggja að stofnanirnar vinni eins og lögin segja,“ segir Sigurður Ingi. 

Hann segir að Samgöngustofa hafi ráðist í breytingar og ætti að vera í stakk búin til að sinna fjárhaglegu eftirliti með flugfélögum. „Ég hef engar ábendingar eða ætlun um að Samgöngustofa sé ekki að sinna sínu verki í dag þó svo hún hafi ekki gert það á þessum tíma.“

 Jón Gunnar Jónsson var skipaður forstjóri Samgöngustofu sumarið 2019 eftir að starfið hafði verið auglýst. Þórólfur Árnason, þáverandi forstjóri, sóttist eftir því að sinna starfinu áfram en var ekki ráðinn. Sigurður Ingi segir að þetta mál hafi spilað þar inn í. „Það var heildstætt mat en augljóslega var þetta einn af þeim þáttum sem komu við sögu á því heildstæða mati að ákveða að auglýsa starfið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í hádegisfréttum.