Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Með hönd á byssunni en ekki búinn að draga hana upp

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ávallt viðbúinn að grípa til harðari aðgerða í sóttvörnum en öll smit gærdagsins tengjast leikskólanum Jörfa. Yfir fjögurþúsund sýni voru tekin í gær sem er með því mesta sem verið hefur en 21 greindist með COVID-19.   

Þórólfur segir að enn eigi eftir að fá raðgreiningu á smiti í leikskóla á Selfossi og veitingahúsi í Reykjavík en enginn greindist við handahófssýnatöku í gær. Hann kveðst tilbúinn til að leggja til harðari aðgerðir. 

„Maður er að vonast til að þetta tengist skólunum og ég er kominn með hendina á byssuna en ekki alveg búinn að draga hana upp.“

Hann segir Íslendinga ekki vilja standa frammi fyrir sama vanda og Svíar þar sem mjög alvarlegt ástand sé á sjúkrahúsum. Að sögn sóttvarnalæknis gengur smitrakning vel því smit séu tiltölulega afmörkuð. 

„Nú erum við búin að fá hvernig landamærasmitið hefur komist inn í skólana. Þetta er allt að skýrast en það tekur smá tíma að hnýta alla lausu endana.“

Einn möguleiki sé að grípa til hörðustu aðgerða uns 80 prósent þjóðarinnar verði bólusett eða að slaka á þegar færi gefist, líkt og gert hefur verið en þá sé alltaf hætta á að hópsýkingar komi upp. 

„Við höfum ekki séð aukningu á innlögnum á sjúkrahús en það gæti hins vegar átt eftir að breytast á næstu einum tveimur vikum.“ 

Þórólfur segir að enn sé ekki komið afgerandi ónæmi í samfélagið en vel hafi gengið að vernda elstu og viðkvæmustu hópana með bólusetningu. Hann segir að til standi að bólusetja mjög marga í næstu viku og mögulega verði karlmönnum undir sextugu gefið bóluefni AstraZeneca.   

„Hugsanlega förum við neðar hjá karlmönnum af því að áhættan af segamyndunum hefur helst sést hjá konum yngri en 55 ára. Þannig að við gætum mögulega farið undir sextíu ára hjá karlmönnum.“