Lýsir yfir áhyggjum af stöðu grunnskólanema

20.04.2021 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins spurði á Alþingi í dag hvort stefnan um skóla án aðgreiningar væri of dýru verði keypt. Árangur grunnskólanemenda í PISA könnunum væri skelfilegur og lesskilningur í frjálsu falli.

Þetta kom fram í umræðu um skóla án aðgreiningar á Alþingi í dag. Málshefjandi var Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins en hann lýsti yfir áhyggjum af stöðu mála.

„Ég hef sérstakar áhyggjur af því hversu illa íslenskir grunnskólanemendur koma út í samanburði við börn í öðrum löndum. Í stuttu máli má segja að PISA-kannanir, sem mæla getu nemenda í fjölmörgum löndum, komi skelfilega út fyrir Ísland. Samkvæmt þeim eru íslenskir grunnskólanemendur í frjálsu falli í lesskilningi og hafa lækkað þar nær samfellt síðustu 20 árin og eru langt undir meðaltali OECD-landa. Tölurnar eru sláandi,“ sagði Karl Gauti.

Staða drengja væri einnig áhyggjuefni og skólakerfið skorti úrræði til að mæta þörfum þeirra.

„Ýmsir hafa bent á að meðalnemandanum sé ekki nægilega sinnt í skólunum eins og kerfið er byggt upp í dag, þeir verði út undan, gleymist. Allur tíminn fari í erfiðustu nemendurna sem eru mest áberandi í hverjum bekk. Hvað með afburðanemendur? Fá þeir næga athygli og verkefni við hæfi? Hvar liggur vandinn í skólakerfinu? Þarf að leggja meiri áherslu á sérskóla og sérdeildir innan skólanna en nú er gert? Hvar bregðumst við? Þarf frekari sérfræðiaðstoð inn í skólana; sálfræðinga eða talmeinafræðinga? Er ekki sett nægilegt fjármagn inn í kerfið? Er þeim ekki nægilega vel varið? Árangurinn er lélegur. Búum við ef til vill við stórlega laskað skólakerfi? Er skóli án aðgreiningar einungis hugmyndafræði eða er stefnan í raun framkvæmanleg? Er þessi stefna of dýru verði keypt?“ sagði Karl Gauti.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði að síðustu niðurstöður PISA hafi tekið mið af árangri í PISA-prófinu sem var tekið árið 2016. Mikil vinna hefði farið í það á undanförnum árum að efla skólastarf.

„Við fórum strax í þær umbætur og lögðum sérstaka áherslu á lesskilning, stærðfræði og náttúrugreinar. Við réðumst í aðgerðir til að fjölga kennaranemum og hver hefur árangurinn verið? Árangurinn er sá að eftirspurn eftir því að fara í nám á menntavísindasviði, bæði á menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, hefur aukist um 153%, sem segir okkur að það er gríðarlegur meðbyr með því að efla menntakerfið. Við byrjum á því að stuðla að því að við fáum öflugt fólk til kennslu,“ sagði Lilja. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV