Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Koma fyrr heim úr skólaferðalagi og beint í skimun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nemendur í 9. bekk Álftamýraskóla í Reykjavík þurfa að koma fyrr heim úr skólabúðum á Laugarvatni þar sem nemandi í bekknum, sem þó var ekki með í ferðalaginu, greindist með COVID-19 í gær.

Nemandinn var í sóttkví, og ekki með í ferðalaginu. Smitið tengist hópsýkingunni á leikskólanum Jörfa. Nemandinn hafði verið í sóttkví frá því á föstudaginn var, en í ljósi þess að samgangur var á milli nemenda áður en hann fór í sóttkví var talið vissara að nemendur komi til höfuðborgarinnar og fari í skimun að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

DV greindi fyrst frá. Samkvæmt pósti sem foreldrar fengu frá skólayfirvöldum eru foreldrar beðnir um að sækja börn sín með grímu og þau þurfa að vera í sóttkví þar til niðurstaða sýnatöku liggur fyrir. 

Í skólabúðunum á Laugarvatni eru einnig nemendur í Álfhólsskóla í Kópavogi. Að sögn Einars Birgis Steinþórssonar, aðstoðarskólastjóra Álfhólsskóla verða nemendur þaðan ekki kallaðir í bæinn strax, en komi fram smit meðal nemenda í Álftamýraskóla verða þeir kallaðir heim í hvelli. Þetta sé gert samkvæmt ráðleggingum smitrakningateymisins. Niðurstaða í skimun nemenda Álftamýrarskóla ætti að liggja fyrir síðar í dag. 

En veiran virðist vera að ná útbreiðslu um Suðurland samt sem áður, því í gærkvöld vaknaði grunur um að tvö börn í 2. og 4. bekk Vallaskóla á Selfossi séu smituð af COVID-19. Allir bekkir í 2. og 4. bekk eru í úrvinnslusóttkví en smit hefur ekki verið staðfest ennþá. Sunnlenska.is greinir frá þessu í gærkvöld.

Þá greindist starfsmaður á leikskólanum Álfheimum á Selfossi með veiruna í gær og er leikskólinn lokaður í dag. Allir starfsmenn voru settir í sóttkví og fara í sýnatöku í dag. Samkvæmt vefnum covid.is eru nú 17 í sóttkví á Suðurlandi og 8 í einangrun.