Kokkur Filippusar varpar ljósi á pönnukökuást hertogans

Mynd með færslu
 Mynd:

Kokkur Filippusar varpar ljósi á pönnukökuást hertogans

20.04.2021 - 23:02

Höfundar

Darren McGrady, sem var einkakokkur bresku konungsfjölskyldunnar í fimmtán ár og eldaði fyrir Elísabetu Bretadrottningu og Díönu prinsessu og syni hennar, upplýsir í myndskeiði á YouTube í dag að íslenskar pönnukökur hafi verið einn uppáhaldsréttur Filippusar drottningarmanns. Hann sýnir síðan áhorfendum hvernig er best að búa þær til.

Filippus var nokkuð tíður gestur á Íslandi og kynntist íslensku pönnukökunum í kaffisamsæti sem hann sótti hér á landi. Hann var ástríðumaður fyrir mat og fram kemur á vef breska blaðsins Express að Harry prins hafi kallað hann „meistara grillmennskunnar.“

En það voru pönnukökurnar á Íslandi sem hertoginn gleymdi aldrei. 

Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson greindi frá dálæti hertogans á pönnukökunum í færslu á Facebook í síðustu viku.

Við þá athugasemd skrifaði Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir að það hefði verið faðir hennar, Þorgeir Þorsteinsson, sem hefði komið Filippusi á bragðið. Þorgeir var sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli og tók reglulega á móti hertoganum þegar hann millilenti hér á landi.

McGrady segir í myndskeiðinu að Filippus hafi hrifist svo mjög af íslensku pönnukökunum að hann hafi beðið Íslendinga um uppskriftina. „Þegar hann fékk hana varð hann mjög spenntur, ekki síst vegna þess að hann gat sent uppskrift til konunglega kokksins. Hann bað síðan reglulega um að pönnukökur yrðu á boðstólum í mörgum af sínum kvöldverðarboðum,“ útskýrir McGrady. 

Hann sýnir síðan áhorfendum hvernig á að búa pönnukökurnar til.  Blanda fyrst saman þurrefnum í eina skál en í aðra fara egg, vanilludropar, mjólk og bráðið smjör. „Í upprunalegu uppskriftinni er notað smjörlíki en mér finnst  alvöru smjör betra,“ segir McGrady. Hann brýnir fyrir áhorfendum að hræra deigið vel því ekki megi vera neinir kekkir.

McGrady virðist reyndar verða á í messunni þegar hann steikir pönnukökurnar upp úr grænmetisolíu. Það þekkja flestir sem búið hafa til pönnuköku að best er að bræða á pönnunni alvöru smjör.

Eins og við má búast af konunglegum kokki föndrar McGrady aðeins við pönnukökurnar áður en hann ber þær fram og setur á þær smá sultu og rjóma. Myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan.