Íslenskt afreksíþróttafólk kallar á hjálp

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Íslenskt afreksíþróttafólk kallar á hjálp

20.04.2021 - 05:33
Íslenskt afreksíþróttafólk hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að nú sé eitt og hálft ár liðið frá því Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi verið afhent bréf um að bæta þyrfti afreksstefnu Íslands í íþróttum. Enn hafi ekkert verið aðhafst í kjara- og réttindamálum afreksíþróttafólks.

Yfirlýsingin, sem fyrir hönd íslensks afreksíþróttafólks, er undirrituð er af sundmanninum Antoni Sveini McKee, Guðlaugu Eddu Hannesdóttir, þríþrautarkonu, og hlauparanum Hlyni Andréssyni. Þar kemur fram að íslenskt afreksíþróttafólk hafi beðið lengi með von í hjarta um að stjórnvöld myndu beita sér fyrir því að móta heildstæða stefnu í afreksíþróttum á Íslandi. Önnur lönd standi okkur mun framar. 

Aðeins einn íslenskur keppandi hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast eftir 94 daga. Það er Anton Sveinn McKee. Íslendingur tók fyrst þátt á Ólympíuleikum árið 1908, þá keppti Jóhannes Jósefsson í grísk-rómverskri glímu fyrir hönd Danmerkur. Eftir heimsstyrjöldina síðari hafa Íslendingar átt góðan fjölda keppenda á hverjum leikum, fyrir utan leikana í Melbourne árið 1956 þegar þeir voru tveir. 

„Vill íslenskt samfélag heyra íslenska þjóðsönginn spilaðan þegar íslenskur afreksíþróttamaður tekur á móti gulli á Ólympíuleikunum? Það mun ekki gerast ef ekkert verður aðhafst í stöðu afreksíþróttafólks. Við þurfum hjálp núna.,” segir í yfirlýsingunni, en hana má í heild sinni lesa hér að neðan.

Íslenskt afreksíþróttafólk kallar á hjálp

Afreksíþróttafólk Íslands setur spurningamerki við stuðning ríkisstjórnarinnar á afreksstefnu Íslands í íþróttum. Enn hefur ekkert verið aðhafst í kjara- og réttindamálum afreksíþróttafólks á Íslandi þegar tæplega eitt og hálft ár er liðið frá bréfi afreksíþróttafólks til mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur þrátt fyrir stöðugar ítrekanir til þingmanna, ráðherra og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Í kjölfar ofangreinds bréfs og áskorunar sem afhent var Lilju í desember 2019 sagði ráðherra að hún myndi beita sér fyrir réttinda- og launamálum afreksíþróttafólk og sýna stuðning til afreksíþrótta á Íslandi. Nú hafa Hanna Katrín (Viðreisn) og Helga Vala (Samfylking) lagt fram þingsályktunartillögur um réttindi afreksíþróttafólks og afreksstefnu Íslands sem hafa setið fastar í allsherjar- og menntamálanefnd. Á sama tíma hefur ekkert stjórnarfrumvarp verið lagt fram af ríkisstjórninni sjálfri.

Þar að auki sat afreksíþróttafólk eftir þegar hinar ýmsu stéttir samfélagsins fengu stuðning vegna COVID-19 faraldursins, til dæmis aukning við listamannalaun. COVID-19 hafði mikil áhrif á tekjumöguleika afreksíþróttafólks þar sem flestum íþróttaviðburðum varð aflýst eða frestað árið 2020 og 2021, þ.á.m Ólympíuleikunum, heimsmeistaramótum, heimsbikarskeppnum, evrópumeistaramótum og svo framv.

Við höfum beðið í langan tíma með von í hjarta um að eitthvað yrði gert í réttindamálum okkar og mótuð heildstæð stefna í afreksíþróttum á Íslandi, eins og við sjáum að er til staðar hjá keppinautum okkar í þeim löndum sem við miðum okkur við. Við getum einfaldlega ekki beðið lengur. Framundan eru Ólympíuleikar og í kjölfarið taka við nokkur ár af stanslausum æfingum og keppnum þarf sem þarf að færa mikið af fórnum og vera áfram réttindalaus í íslensku samfélagi til þess að vera fulltrúi Íslands á næstu Ólympíuleikum, stærsta íþróttasviði heims. Þetta er ákvörðun sem besta íþróttafólk í einstaklingsíþróttum á Íslandi stendur frammi fyrir og er ástæðan fyrir því að fæst þeirra halda áfram til að ná toppnum í sinni íþrótt og standa á verðlaunapalli á stórmótum fyrir Íslands hönd. 

Það er einungis einn íslenskur íþróttamaður, sundmaður Anton Sveinn McKee, sem hefur náð lágmörkum á Ólympíuleikana í Tókyó sem haldnir verða í sumar. Það lítur út fyrir að Ísland muni senda sitt minnsta lið á Ólympíuleikana í yfir 100 ár, en liðið hefur ekki verið minna síðan á Ólympíuleikunum í London árið 1908 þegar Jóhannes Jósefsson fór einn á Ólympíuleikana. Ef við berum saman síðustu þrjá leika þá náðu inn tólf einstaklingsíþróttamenn árið 2008, þrettán árið 2012 og átta árið 2016. Ef rýnt er í þessar tölur er augljóst að kröfur og lágmörk til þess að keppa á Ólympíuleikum hafa hækkað á meðan að stuðningur frá ríkinu við íslenskt afreksíþróttafólk hefur ekki fylgt eftir þeirri þróun.

Vill íslenskt samfélag heyra íslenska þjóðsönginn spilaðan þegar íslenskur afreksíþróttamaður tekur á móti gulli á Ólympíuleikunum? Það mun ekki gerast ef ekkert verður aðhafst í stöðu afreksíþróttafólks. Við þurfum hjálp núna.

Virðingsfyllst,
Fyrir hönd íslensks afreksíþróttafólks á Íslandi,
Anton Sveinn McKee
Guðlaug Edda Hannesdóttir
Hlynur Andrésson

 

Bréf afreksíþróttafólks frá árinu 2019:

Réttindi afreksíþróttafólks

Kæra Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og til þeirra er málið varðar,

Síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega stigið fram opinberlega og talað um slæma fjárhags- og réttindastöðu sína. Afreksíþróttafólk hefur fengið árangurstengda styrki frá Afrekssjóði ÍSÍ og oftar en ekki eru þessir styrkir eina innkoma afreksíþróttafólks til þess að fjármagna keppnis- og æfingaferðir.

Styrkir sem þessir eru ekki skilgreindir sem laun, svo að afreksíþróttafólk vinnur sér ekki inn réttindi á meðan á ferlinum stendur. Flest íslenskt afreksíþróttafólk reynir að vinna til að standa undir kostnaði við íþrótt sína, á meðan keppninautar þess á heimsvísu geta helgað sig sinni íþrótt. Til þess að komast á heimsmælikvarða þarf íþróttin að vera atvinna einstaklingsins og torgert er að vera í fullu starfi á meðan á ferlinum stendur.

Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi, stéttarfélagsaðild, atvinnuleysisbætur, aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttindi til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt. Nú á árinu hefur hvert afreksíþróttafólkið á fætur öðru stigið fram og tjáð sig um að staða þess sé ekki góð, að erfitt sé að æfa og keppa á heimsmælikvarða án launa og réttinda.

Undirritaðir senda nú beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytis og þeirra er málið varðar að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks og koma þeim í réttan farveg, eins og þau eru í öðrum stéttum samfélagsins.

Við erum fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi, sameiningartákn þjóðarinnar og sterkar fyrirmyndir. Við viljum halda áfram að gera Íslendinga stolta og iðka íþróttir á heimsmælikvarða. Það er ekki hægt ef við höfum ekki almenn réttindi. Nú er kominn tími til breytinga.