Ísland er eftirbátur annarra norrænna landa

20.04.2021 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er eftirbátur hinna norrænu landanna á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum. Í 130 ríkjum er fjölmiðlafrelsi annað hvort ekkert eða verulega skert.

Ísland féll niður um eitt sæti á lista Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi og situr nú í sextánda sæti. Í umsögn samtakanna segir að samskipti fjölmiðla og stjórnmálafólks hafi farið versnandi síðustu ár. Þá hafi hrunið 2008 haft mikið áhrif á fjárhagsstöðu fjölmiðla hér á landi sem séu verr í stakk búnir til þess að takast á við þrýsting frá hagsmunaaðilum. Loks er minnst á Samherjaskjölin og viðbrögð Samherja við þeirri umfjöllun. Blaðamenn án landamæra segja Samherja hafa sett á fót ófrægingarherferð gegn fjölmiðlafólki sem fjallaði um málið. Fjölmiðlafrelsi er mest í Noregi, fimmta árið í röð. Næst á eftir koma Finnland, Svíþjóð og Danmörk.

Ofbeldi og misnotknun er ein breytan sem samtökin rannsaka við gerð listans. Ofbeldi gegn fjölmiðlum og fjölmiðlafólki hefur tvöfaldast, og gott betur en það, í ríkjum Evrópusambandsins og á Balkansskaga. Af þeim 180 ríkjum sem samtökin taka til skoðunar er fjölmiðlafrelsi ekkert eða verulega skert í 130 þeirra. Löndin fá einkunn og eru flokkuð eftir litakóða. Ríki sem geta státað sig af góðu ástandi eru hvít, og hvítu ríkin eru aðeins tólf.  

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV