Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Heimurinn inni í flúorperunni

Mynd: Menningin / RÚV

Heimurinn inni í flúorperunni

20.04.2021 - 13:39

Höfundar

Ef allt væri með felldu hefði Sigurður Guðjónsson átt að vera í Feneyjum að undirbúa opnun íslenska skálans á Tvíæringnum. Honum var hins vegar frestað um eitt ár. Í millitíðinni hefur Sigurður opnað nýja sýningu í Berg Contemporary, sem nefnist Yfirskyggðir staðir.

Sigurður Guðjónsson er nafnkunnur fyrir frumlegar vídeóinnsetningar sem skapa oft óræða heima á mörkum hins lífræna og vélræna.  Hann hlaut íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 og verður fulltrúi Ísland á Feneyjatvíæringnum, sem var frestað fram á næsta ár. Á Yfirskyggðum stöðum sýnir hann verk sem hann hefur unnið undanförnum tveimur árum.    

„Vinnustofan er tilraunastofa, ég er stanslaust að gera tilraunir, og það má segja að þegar við ákváðum að það yrði sýning hér að þessi verk hafi valið sig sjálf hérna inn.“  

Titill sýningarinnar vísar í þá staði eða rými sem Sigurður sækir efniviðinn fyrir vídeóverkin.

„Eitt verkið heitir Fluorescent, þar sem ég er að gera tilraunir með  flúorljósaperu og skoða innri heim perunnar. Ég opna hana upp og filma inn í hana með háhraða vídeókameru og makrólinsu. Það sem við sjáum í verkinu er ljómefnið úr perunni sem er að spinnast. Þetta blandast saman við hljóðheim, sem ég sæki líka úr straumnum í perunni. Flúorljósið er fyrirbæri sem þekkjum úr iðnaðarrýmum, kennslustofum og er alltaf í kringum okkur á einhvern hátt. Það er forvitnilegt að líta inn í þennan heim og velta fyrir sér hvað er að gerast þarna inni.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: - - Sigurður Guðjónsson

Í öðru vídeóverki hefur Sigurður skannað lítil kolabrot með rafeindasmásjá frá 15 sjónarhornum. Þær myndir eru svo teknar inn í tölvu þar sem ég umbreyti þeim. 

Meðan flúorperan minnir á sólmyrkva vekja kolabrotin hugrenningatengsl  við hafsbotninn.

„Verkin tala öll saman á einhvern hátt þrátt fyrir ólíkar nálganir.“

Sýning Sigurðar Gujónssonar í Berg Contemporary.
 Mynd: Menningin - RÚV

Sigurður segir að þegar tilkynnt var að Feneyjatvíæringnum hefði verið frestað hafi hann tekið sér hlé frá undirbúningi en gerir ráð fyrir að fara á full aftur í haust.

„Ég held að verkefnið græði á því, það fær að eimast. Við vitum hvar við erum að fara að sýna núna, eitthvað sem við vissum ekki nákvæmlega áður. Núna er hægt að halda áfram og vinna verkið beint inn í sýningarrými í Feneyjum sem er mjög spennandi.“ 

Fjallað var um sýninguna Yfirskyggðir staðir í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Sigurður Guðjónsson fulltrúi Íslands í Feneyjum

Myndlist

Sigurður Guðjónsson er myndlistarmaður ársins

Myndlist

Færa vinnandi fólki í landinu listina