Mikill mannfjöldi var samankominn við Reykjavíkurhöfn 21. apríl 1971 til að fagna heimkomu merkra handrita, Flateyjarbókar og Konungsbókar Eddukvæða. Fimmtíu ár eru nú liðin frá þessum degi og honum verður fagnað rækilega í þættinum Handritin til ykkar sem sýndur verður á RÚV klukkan 10 miðvikudaginn 21. apríl.
Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Árnastofnun, segir að það sé mikilvægt að hver kynslóð fái að kynnast miðaldahandritunum sem varðveitt eru á Íslandi. Tímarnir séu þó alltaf að breytast og þrátt fyrir að handritin séu þau sömu sé óhjákvæmilegt að sníða kynninguna eftir tíðarandanum hverju sinni. Nú hafi ungir listamenn tekið efni úr Konungsbók eddukvæða og gert að sínu og það verði spennandi að sjá útkomuna.
Í þættinum verður Þrymskviða meðal annars leikin og þjóðþekktir Íslendingar tengja sig við norræna guði. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi ungmennahandrit í handritasamkeppni sem Árnastofnun hefur staðið fyrir undanfarið meðal grunnskólanema. Vegna samkomutakmarkanna var ákveðið að birta niðurstöður dómnefndar um handritin frá börnunum á vefnum hirslan.arnastofnun.is
„Okkur bárust hátt í 100 handrit frá grunnskólanemum á ýmsum aldri og það var mjög upplífgandi að sjá sköpunargleðina og hugmyndaauðgina hjá þátttakendum. Getan til að gera handrit er ekki útdauð þó árið sé 2021,“ segir Eva María.