Gosið ekki í rénun þó að slokknað sé í nyrsta gígnum

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Það er fátt sem bendir til þess að gosið í Geldingadölum og Meradölum sé að ljúka þrátt fyrir að hætt sé að gjósa í nyrsta gígnum. Þvert á móti benda mælingar til þess að hraunrennsli sé heldur að aukast en hitt.

Þetta kemur fram í pistli á vef Veðurstofunnar sem ber yfirskriftina Hversu lengi varir gosið við Fagradalsfjall?. Nú eru rúmur mánuður frá því að gosið hófst föstudagskvöldið 19. mars og eflaust margir sem velta þeirri spurningu fyrir sér. Frá því að gosið hófst voru lengi vel tveir gígar í aðalhlutverki. Það eru gígarnir í Geldingadölum. En á anna dag páska opnaðist nýr gígur norðaustur af Geldingadölum. Fljótlega eftir páska opnuðust tveir til viðbótar með skömmu millibili, og svo opnuðust fjórir á skömmum tíma á þriðjudaginn í seinustu viku. Í fyrradag hætti kvika að koma upp úr páskagígnum svokallaða, og virðist hann sofnaður, í bili að minnsta kosti. 

„Það er ekki augljóst hvað það táknar varðandi framgang gossins“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Frá því að gosið hófst fyrir um þrjátíu dögum hefur það verið síbreytilegt. Nú er engin kvika að streyma upp úr fyrsta gígnum sem opnaðist utan Geldingadala, það til dæmis endurspeglar þennan síbreytileika og ekki víst að gígurinn sé alveg sofnaður“, segir Sara. 

Á vefmyndavél RÚV sem sýnir frá eldstöðvunum frá Fagradalsfjalli og sýnir Geldingadalina má sjá að gígurinn sem opnaðist fyrst og var lengi vel aðalleikarinn í gosinu, og er jafnan nefndur Syðri, virðist vera heldur að láta í minni pokann því frá honum kemur aðeins reykur og gufa að því er virðist. Það er viðbúið að gos eins og þessi hagi sér nákvæmlega svona, að gígar opnist og lokist á víxl. Það er alþekkt í hraungosum eins og til að mynda gerðist í Kröflueldum. 

Sara segir í pistlinum að það sé ekkert sem bendi beint til þess að gosinu sé að ljúka.

„Því er ekkert hægt að fullyrða um að það séu fyrstu merki þess að gosið sé að dvína. Þvert á móti þá sýnir nýjasta samantekt samstarfsfélaga okkar í Háskólanum að hraunflæði hefur ekki minnkað og hefur jafnvel aukist síðustu daga“, segir Sara.

Út frá gervihnattamyndum sem mæla hitageislun á yfirborði jarðarinnar má meta mátt gossins. Hægt er að skoða þær mælingar á vefsíðu MIROCA verkefnisins. Upplýsingarnar eru birtar í rauntíma og gefa upp frávik í hitageisluun á yfirborði jarðar. Í pistli Veðurstofunar má einnig sjá skemmtilega samantekt á því hvernig hraunbreiðan hefur breitt úr sér í Geldingadölum og Meradölum frá því að gosið hófst. Eins má sjá kortið og færsluna á Fréttavakt RÚV um Eldgosið ásamt öðrum fróðleiksmolum. 

Hér að neðan má sjá loftmynd af gígnum sem opnaðist á annan dag páska en lokaðist í fyrradag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Birgir Óskarsson - RÚV