Eru Emmsjé Gauti og Helgi Sæmundur tossar?

Mynd: Helgi Sæmundur / Tossi

Eru Emmsjé Gauti og Helgi Sæmundur tossar?

20.04.2021 - 16:30

Höfundar

Nú er heldur betur farið að styttast í sumardaginn fyrsta og gott ef það er ekki smá sólarglæta í útgáfu vikunnar. Það helsta í Undiröldu kvöldsins er nýtt frá Emmsjé Gauta og Helga Sæmundi sem eru á poppaðri nótunum í laginu Tossi og Ari Árelíus syngur um Apríkósur. Annað tónlistarfólk með nýtt efni eru þau Pale Moon, Sigga Ózk, Ása Elínardóttir, Hlynur Snær og svo sextíu ára afmælisdúett frá Eyfa og Haffa Haff.

Emmsjé Gauti og Helgi Sæm - Tossi

Tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti og Helgi Sæmundur hafa sent frá sér annað lagið af plötunni Mold sem kemur út seinna á árinu og þar kveður við nýjan tón hjá röppurunum. Í nýja laginu Tossi ganga listamennirnir nefnilega í enn meira daður við poppgyðjuna en í laginu Heim sem hefur heyrst töluvert upp á síðkastið hér á Rás 2.


Ari Árelíus - Apríkósur

Ari Frank Andrésson sem notar listamannsnafnið Ari Árelíus hefur sent frá sér lagið Apríkósur. Í laginu biður Ari Árelíus fólk um að staldra við, fá sér ávöxt, njóta og vera ánægt með lífið - því grasið er ekki grænna hinum megin.


Pale Moon - Parachutes

Hljómsveitin Pale Moon hefur gefið út lagið Parachutes sem er titillag væntanlegrar plötu en dúettinn hefur sent reglulega frá sér tónlist síðustu tvö ár. Sveitin er sem fyrr skipuð þeim Natalíu Sushchenko og Árni Guðjónssyni sem vinna að nýju plötunni í sumarhúsi sínu í Katalóníu á Spáni.


Ása Elínar - Sólin er sest inn í mér

Tónlistarkonan Ása Elínardóttir hefur sent frá sér nokkur lög í gegnum tíðina og er sennilega þekktust fyrir lögin Always og Crocodile Tears undir listamannsnafninu ASA. Nú hefur hún sent frá sér lagið Sólin er sest inn í mér og notast nú við nafnið Ása Elínar.


Hlynur Snær - Töltið

Það hafa ófáir tónlistarmenn sungið um íslenska hestinn og gangtegundir hans og nú bætist Hlynur Snær Theodórsson í þann fagra flokk. Hlynur syngur lag sitt og texta Töltið með hjálp dóttur sinni Sæbjörgu Evu sem syngur bakraddir, Benedikt Brynleifsson spilar á trommur en um flest annað sá Vignir Snær Vigfússon.


Sigga Ózk - Ný ást

Síðastliðinn föstudag kom út platan Ný ást sem er fyrsta plata tónlistarkonunnar Siggu Ózkar sem heitir fullu nafni Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, en platan er sjö laga þröngskífa sem inniheldur lagið Ný ást.


Logi Pedro - Ef Grettisgata gæti talað

Á Íslensku tónlistarverðlaununum síðustu helgi kom í ljós að lag Loga Pedro, Ef Grettisgata gæti talað, var útnefnt sem besta rapplagið. Lagið var að finna á plötunni Undir bláu tungli sem kom út í fyrra.


Eyjólfur Kristjánsson og Haffi Haff - That old song

Eyjólfur Kristjánsson er orðin sextugur og ætlar að fagna því með útgáfu sex nýrra laga á árinu. Fyrsta lagið sem kemur út er ábreiða Eyfa og Haffa Haff af laginu That Old Song sem Ray Parker Junior gaf út árið 1982.