Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Derek Chauvin sakfelldur fyrir öll ákæruatriði

epa09147913 A couple pause for a moment in front of a portrait of George Floyd on the second day of deliberations for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin who was charged in the death of George Floyd are being held, in Minneapolis, Minnesota, USA, 20 April 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kviðdómur í máli fyrrverandi lögreglumannsins Derek Cauvins komst að þeirri niðurstöðu rétt í þessu að Chauvin er sekur í öllum þremur ákæruatriðum. Hann var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald og verður í fangelsi þar til dómari hefur ákveðið refsingu yfir honum. Chauvin var ákærður fyrir að vera valdur af dauða George Floyd í maí í fyrra.

Dómurinn er sögulegur því þetta er í fyrsta skipti í sögu Minnesota sem lögreglumaður er sakfelldur vegna andláts blökkumanns í haldi lögreglu.  Mikil fagnaðarlæti hafa brotist út í Minnesota, ef marka má textalýsingu BBC.

Heimsbyggðin fékk að sjá og heyra síðustu mínúturnar í lífi George Floyd. Fólk sem fylgdist með handtöku Floyds í maí í fyrra tók aðfarir lögreglumannsins Derek Chauvin upp á símana sína og dreifði. 

Floyd var handtekinn eftir að verslunareigandi hringdi í lögreglu og sagði Floyd hafa reynt að borga sér með fölsuðum 20 dollara seðli. Á myndskeiðum af handtökunni sést Chauvin þrýsta hnénu að hálsi Floyds í 9 mínútur og 29 sekúntur. 

Örlög Floyds urðu kveikjan að fjölmennum mótmælum víða um Bandaríkin. Chauvin var rekinn úr lögreglunni og síðar ákærður fyrir fyrir annarrar gráðu morð, og til vara fyrir morð af þriðju gráðu og manndráp. Hann lýsti sig saklausan. 

Kviðdómurinn, sem skipaður er 12 manns, hlýddi á lokaorð verjenda og saksóknara í málinu í gærkvöldi og fór svo afsíðis á hótel til að komast að niðurstöðu um sekt eða sýknu Chauvins. Þjóðvarðliðar gættu herbergja þeirra. Það tók því ekki langan tíma fyrir kviðdóminn að komast að niðurstöðu, hann var kunngjörður nú á tíunda tímanum í kvöld. 

Næst er það í höndum dómara að ákvarða refsingu Chauvins.