Borgarstjóri bólusettur í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, var einn fjölmargra sem bólusettur var með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll í dag. Dagur hafnaði bólusetningu þegar hann fékk boð sem læknir en fékk boð núna þar sem hann er á ónæmisbælandi lyfjum.

Það ríkti hálfgerð hátíðarstemning í Laugardalshöllinni þegar mörg þúsund manns fengu sinn fyrsta skammt af bóluefni Pfizer. Hljóðfæraleikarar sáu um að halda taktinn og allt gekk fumlaust fyrir sig. 

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma er stærsti hluti þeirra sem fá sprautu í þessari viku og meðal þeirra voru grínistinn Sóli Hólm og  Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Sóli hefur rætt á opinskáan hátt um baráttu sína við krabbamein og Dagur greindist með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm sem kom eftir sýkingu.

Dagur segir í samtali við fréttastofu að hann hafi næstum því skellt upp úr þegar hann áttaði sig á því að þeir sem stjórnuðu umferðinni í Laugardalshöll voru elítan úr umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með Árna Friðleifsson í broddi fylkingar. „Þetta er geysilega vel slípað. Ísland er búið að gefa hundrað þúsund skammta og það sást vel þarna hversu skipulagið var flott og verklagið slípað.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV