Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bautasteinn á áður týnda gröf skáldsins

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV

Bautasteinn á áður týnda gröf skáldsins

20.04.2021 - 19:36

Höfundar

Bautasteinn prýðir nú gröf Páls Ólafssonar stórskálds og konu hans Ragnhildar Björnsdóttur í Hólavallagarði. Gröf hjónanna fannst í fyrra, eftir að hafa verið týnd um árabil.

Rúm öld er liðin frá því að stórskáldið Páll Ólafsson sem orti um lóuna og hina blessuðu sumarsól, og kona hans Ragnhildur Björnsdóttir voru lögð til hvílu í Hólavallagarði. Nú loks prýðir legsteinn leiði þeirra.

Páll lést 1905 og hirti Ragnhildur um leiði hans uns hún var grafin við hlið hans. Með tímanum virðist staðsetning grafarinnar hafa gleymst, en afkomendur hjónanna eru allir fæddir og uppaldir erlendis. 

Kista Páls var einstök í laginu, stutt og ferköntuð, þar sem hann var grafinn í fósturstellingu. Því var unnt að staðsetja leiði hans með jarðsjá.

„Við renndum hérna yfir nokkur leiði og þá kom í ljós ótvírætt að hér á þessum stað er kassalaga kista. En við teljum nokkuð víst að Páll sé fundinn,“ segir Ágúst H. Bjarnason, frændi Páls. 

Stærri athöfn bíður betri tíma en gestir garðsins geta nú barið grafreitinn augum. Skáldskapur Páls prýðir steininn og myndir af baldursbrám sömuleiðis.

„Þegar að Ragnhildur sér um leiði Páls hérna kom hún á hverju vori og ræktaði baldursbrár á leiði hans, þannig það er mjög skemmtilegt að þær eru komnar aftur og varanlegri en áður,“ segir Ágúst.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gröf skáldsins fundin eftir að hafa verið týnd í 100 ár