Andrésarleikunum frestað, flýtt aftur og nú aflýst

20.04.2021 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: Andrésar Andar leikarnir
Ákveðið hefur verið að aflýsa Andrésar andar leikunum árið 2021. Hátt í eitt þúsund keppendur voru skráðir til leiks. Almannavarnir og sóttvarnalæknir lögðust gegn áformunum í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi varðandi farsóttina í samfélaginu.

Þetta kemur fram á vef Skíðafélags Akureyrar. Nokkuð hringl hefur verið með hvort að leikarnir yrðu haldnir eða ekki. Leikunum hafði áður verið frestað fram í maí, en voru svo aftur færðir fram og áttu að hefjast venju samkvæmt á fimmtudaginn, á Sumardaginn fyrsta. Í ljósi útbreiðslu veirunnar undanfarna daga breyttist staðan hins vegar snögglega. 

„Það ríkir mikil sorg hjá aðstandendum Andrésar andar leikanna að hafa aftur í ár þurft að aflýsa leikunum. Og nú á allra síðustu stundu. Undanfarna daga og allt fram á síðustu stundu hefur framkvæmdanefnd leikanna leitað leiða í samráði við sóttvarnaryfirvöld, heilbrigðisráðuneytið, Almannavarnir, bæjaryfirvöld, ÍSÍ, SKÍ og SKA til að hægt verði að halda leikunum til streitu í samræmi við gildandi reglur. Á fundi þessara aðila í hádeginu í dag þriðjudag voru allir sáttir við það sóttvarnaplan sem leggja átti fyrir. Það var svo núna seinnipartinn að forsendur breyttust þar sem Almannavarnir og sóttvarnarlæknir lögðust gegn því að leikarnir yrðu haldnir þar sem það felur í sér of mikla hættu á smiti m.v. það ástand sem ríkir í landinu,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að stefnt hafi verið að því að halda leikana með ítrustu sóttvarnir í huga.

„Það eina sem vakti fyrir Andrési var að leyfa börnunum að koma saman innan þeirra takmarkana sem gilda og eiga þannig frábæra daga í Hlíðarfjalli! Það er hinsvegar núna úr okkar höndum og við beygjum okkur undir sóttvarnar tilmæli yfirvalda sem kveður á um forðast skuli alla hópamyndanir og blöndun á milli hópa. Við biðjumst hinsvegar velvirðingar á að upplýsingastreymi var e.t.v. ekki nægjanlegt s.l. sólarhringa en það stafar af þeirri óvissu sem hefur ríkt. Við trúðum því fram á síðustu stundu að hægt væri að halda leikana,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum leikanna.