Af hverju er plantan mín svona döpur?

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Af hverju er plantan mín svona döpur?

20.04.2021 - 08:39

Höfundar

„Fyrsta blómið sem ég átti, svona prívat og persónulega, það var Iðna-Lísa, sem ég kom til og þar á eftir fylgdi síðan Gyðingur. Ég hef verið svona níu eða tíu ára," segir Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður sem hefur varið sinni starfsævi meira og minna í að fræða fólk um plöntur og hvetja til ræktunar.

Hafsteinn var um árabil með sjónvarpsþættina Grænir fingur sem nutu mikilla vinsælda og þar fjallaði hann um garðyrkju frá ýmsum hliðum. Í seinni tíð hefur hann nýtt sér samfélagsmiðlana í að koma boðskapnum á framfæri en hann meðal annars stýrir hann vinsælum Facebook hópi sem nefnist „Stofublóm, inniblóm, pottablóm" og þar er hann óþreytandi við að svara allskonar spurningum um hvaðeina er viðkemur inniræktun.

„Algengasta spurningin er: „Af hverju er plantan mín svona döpur?" og þá reyni ég finna út úr því. Oft er svarið að plantan sé ofvökvuð," segir Hafsteinn.

Aðspurður segist hann þekkja flest blóm sem hann fær myndir af, allavega ættina og ættkvíslina en svo komi alltaf eitt og eitt afbrigði sem hann hafi ekki séð.