Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

United Airlines hefur áætlunarflug til tveggja borga

Mynd með færslu
 Mynd: Isavia
Daglegt áætlunarflug bandaríska flugfélagsins United Airlines til Íslands hefst að nýju 3. júní næstkomandi. Þann dag verður flogið milli New York og Íslands líkt og félagið gerði áður. Skömmu síðar hefst áætlunarflug milli Íslands og Chicago í Illinois.

Í júlí hefjast flugferðir milli O'Hare flugvallar í Chicago og Keflavíkurflugvallar. Í tilkynningu kemur fram að það sé í fyrsta sinn sem United býður upp á flug milli þeirra áfangastaða. Þegar er hægt að bóka flug.

Fyrsta flugferðin frá Chicago verður farin 1. júlí og sú síðasta þangað verður 4. október í haust. Ætlunin er að flug til og frá New York standi til 30. október. Frá Chicago geta farþegar tengst yfir hundrað borgum í Norður-Ameríku.  
 
Áhugi á Íslandi hefur aukist í leitarvél United Airlines sem nemur um 61 af hundaði undanfarna mánuði sem endurspegli áhuga farþega félagsins á því að ferðast til landsins.

Patrick Quayle, aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðasviðs United, segir ferðalanga orðna áfjáða í ferðir til nýrra áfangastaða.

Mat Guðmundar Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, er að Bandaríkjamarkaður hafa verið afar mikilvægur fyrir faraldurinn og hann verði það áfram að honum loknum.

Bandaríska flugfélagið Delta hefur einnig flug til og frá Íslandi í vor.